þriðjudagur, 16. febrúar 2021

Engin sorg á herðum, þótt ekkja falli í valinn (Einar Ben.).

Síðasta samtalið sem ég átti við Stefaníu ömmu mína var um lífið og dauðann. Hún kom við í Víðihvamminum, æskuheimili mínu með Árna Byron Njarðvík, tengdasyni sínum eftir jarðarför vinkonu, hann hafði keyrt hana. Við sátum inn í stofu og það ríkti þögn við borðið. Til þess að rjúfa þögnina spurði ég hana hvort þetta hafi verið sorgleg jarðarför. Hún endurtók spurningu mína og sagði svo: Nei, þetta var ekki sorgleg jarðarför. Síðan stendur hún upp gengur að bókaskápnum og tekur ljóðabók Einars Benediktssonar og fer með ljóð sem efnislega fjallar um andlát eldri konu. Í ljóðinu segir skáldið að enginn syrgi andlát aldraðrar konu. Síðar báust mér þessar ljóðlínur frá góðum vini: Og ekki er mikill tregi/ og engin sorg á herðum/ þótt ekkja falli í valinn/ með sjötíu ár á herðum. Þetta hefur verið í apríl/maí 1970 sjálf lést hún um mánuði síðar 66  ára gömul.
Ég var búinn að leita töluvert að þessu ljóði í gegnum árin en fann aldrei. Man ekki heldur hver þessi vinkona hennar var. Þessi atburður kemur endrum og sinnum upp í hugann. Rakst svo í kjölfarið af þessum hugleiðingum mínum á þessa minningargrein eftir föður minn sem ég hafði ekki séð áður. Hann skrifar þessa grein mörgum mánuðum síðar. Hann hefur ekki ráðið við tilfinningar sínar við andlát hennar og tekið sér tíma til að minnast hennar. Veturinn 1969/1970 heimsótti ég afa og ömmu einu sinni í viku á miðvikudögum. Það var hlé í Austurbæjarskóla á miðvikudögum og í stað þess að hanga í skólanum gékk ég upp á Hringbraut til þeirra í hádeginu og borðaði með þeim og spjallaði. Ógleymanlegar gæðastundir fyrir óharðnaðan ungling. (uppfært febrúar 2021)


Engin ummæli: