miðvikudagur, 27. júlí 2005

Ferð um Vestfirði.


Silfurtorg á Ísafirði.

Lítið verið skrifað undanfarna dag enda höfum við verið á ferðalagi um Vestfirði og skutumst til Akureyrar í leiðinni til að heimsækja nafna og foreldra hans. Við fórum á fimmtudaginn í síðustu viku. Lögðum af stað seinni partinn og keyrðum um Dali í Reykhólasveit. Við gistum í Djúpadal á Barðaströnd. Þar er þessi fína einkasundlaug sem gott var að heimsækja um miðnættið. Daginn eftir var ferðinni haldið áfram til Ísafjarðar. Þar var dvalið á Hótel Eddu í tvær nætur og tímanum eytt í að skoða nánasta umhverfi og heimsækja ættingja og heilsa upp á kunningja og frændur sem við hittum á Silfurtorgi. Við skruppum yfir á Suðureyri og til Flateyrar. Á Suðureyri skoðuðum við steinda glugga í kirkjunni sem eru afar fagurlega gerðir. Vestfirðir eru enn hin leynda perla Íslands það virðast allavega ekki vera margir ferðamenn sem leggja leið sína þangað. Að ferðast í sól og sumaryl um Vestfirði er engu líkt. Á sunnudaginn fórum við til Akureyrar og áttum góða stund hjá Svenna og foreldrum hans. Vorum í aðallega í miðbænum og nánasta nágrenni í yndislegu sumarveðri. Veðrið í dag hefur verið yndislegt hérna fyrir sunnan þannig að það er ekki hægt að kvarta yfir neinu.

Engin ummæli: