mánudagur, 24. apríl 2006

Dutlungafullt veður, eldgosumræður og kóræfing.

Það er óhætt að segja það að veðrið getur verið dutlungafult á Íslandi. Við erum nýbúin að fagna sumri þegar vetur konungur tekur aftur völdin. Í morgun var alhvít jörð með 5 cm snjólagi. Maður byrjaði morgunstörfin á því að skafa snjó af bílnum. En það er ekkert frost í jörðu og svo hlýnaði þegar leið á daginn og snjórinn var horfinn er líða tók á daginn. Skaftárhlaup er í rénun í dag. Jarðfræðingar velta því fyrir sér og telja sig hafa vísbendingar um það að aukin eldvirkni í Vatnajökli gæti leitt til þess að eldgos verði á því sigkatlasvæði þar sem jökulhlaup í Skaftá eiga upptök sín. Þetta minnir okkur á hversu mikil eldvirkni er víða á Suðurlandi. Hekla er talin vera í ham til þess að geta gosið svo og Eyjafjallajökull, Katla og víða í Vatnajökli. Nú að maður minnist ekki á Lakagíga. Sagt er að jökulhlaup við Kötlugos séu allt að fimmfalt kröftugri en Skeiðarárhlaup eins og við upplifðum það fyrir nokkrum árum. Áhrif þess gæti náð allt til Kanaríeyja og valdið þar flóðbylgjuáhrifum. Þetta var nú umræðuefnið í hléi á æfingu með Sköftunum í kvöld. Enda stendur þetta umræðuefni nærri Skaftfellingum. Niðurstaðan var engin "what will be will be." Annars var þetta síðasta æfing vetrarins. Næst verða haldnir tónleikar og sunnudagskaffi fyrir eldri eldri Skaftfellinga þann 7. maí næstkomandi og eru allir Skaftfellingar hvattir til þess að mæta og hlusta á kórinn og spjalla við gamla sveitunga sína. Ég hef haft mikla ánægju af kórstarfinu í vetur. Tenórinn hefur verið öflugur og mætt vel en því miður hafa aðrar raddir átt í vandræðum vegna mætina. Þetta þykir óvenjulegt því yfirleitt eru vandræði með tenórraddir í svona blönduðum kórum. Hápunktar vetrarstarfsins eru að sjálfsögðu tónleikar fyrir jól á heilbrigðisstofnunum og svo æfingahelgin í Sólheimum. Hef þetta ekki lengra í bili. Kveðja.

Engin ummæli: