miðvikudagur, 19. apríl 2006

Gleðilegt sumar!


Nafni minn.
Já gleðilegt sumar allir bloggvinir. Ég fann nú ekkert sumarlegra en þessa fínu mynd af honum nafna mínum í Svíþjóð og við sendum honum og fjölskyldu hans sérstaka sumarkveðju. "Nú er sumar, gleðjist gumar, gaman er í dag. Brosir veröld víða, veðurlagsins blíða. :,:Eykur yndishag. :,: " segir í ljóðinu. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvaða minningar væru tengdar sumardeginum fyrsta. Hér áður fyrr var þetta dagurinn sem kom manni alltaf svolítið á óvart, svona "semi" sautjándi júní. Maður undraðist það að þennan dag var yfirleitt aldrei komið neitt sumar. Það átti jafnvel til að snjóa þennan dag. En dagatalið lætur ekki að sér hæða hvernig svo sem veðrið er þennan ágæta dag. Sagt er að þegar vetur og sumar frjósi saman viti það á gott sumar. Þetta er sannarlega í anda bjartsýnismanna að halda einhverju svona á lofti þegar veðrið er ekki í takt við þetta fallega nafn "sumardaginn fyrsta". Þessi dagur tilheyrir leifum hins gamla bændasamfélagas og markar tímamót vonar og hækkandi sólar og endalok vetrarhokursins í torfbæunum. Hann er ekki ómerkilegri fyrir það en hefur samt ekki sömu merkingu og þá. Það er eins með lokadaginn á vetrarvertíð sem venjulegast miðast við 11. maí, ef ég man rétt. Hann hefur heldur ekki sömu þýðingu og áður. Það var dagurinn sem sveitamennirnir héldu heim á leið til þess að sinna skyldum sínum við bústörfin í sveitunum. Sigrún sagði reyndar í kvöld að það væri vorlykt í loftinu. Vonandi veit það líka á gott sumar. Einvhernveginn er það í mínu langtímaminni að ég hafi farið á fæðingardeildina að skoða Þórunni systur í fyrsta skipti á sumardaginn fyrsta. Allavega poppar það stundum upp í hugann. Ég tengi það því að þegar ég var á leiðinni á fæðingardeildina í heimsókn sá ég sveit skáta ganga með íslenska fánann nálagt Hafnarfjarðarveginum Fossvogsmeginn. Þar sem búðin stóð og nú eru brýrnar yfir Nýbýlaveginn. Það er nú svona ein sterkasta minningin frá uppvaxtarárunum. Þetta er skrifað að kvöldi 19. apríl en sumardagurinn er á morgun 20. apríl. Kveðja.

Engin ummæli: