mánudagur, 13. apríl 2009

Á tólftu hæð í Jönköping.

Sit hérna á tólftu hæð í háhúsi sem kallast Jätten og horfi til norðurs út í næturmyrkrið sem grúfir yfir Vättern. Einstaka ljóstýru má sjá á stangli sem speglast í sléttum vatnsfletinum. Í austri sér yfir miðbæ Jönköping og fjær sér til Huskvarna. Þar eru framleiddar saumavélarnar og vélbyssur sem byggja meira og minna á sömu tækni. Beint fyrir neðan háhúsið er eldspítusafnið fræga, Tändsticks Museet. Hér sá fyrsta eldspítan dagsins ljós í Jönköping. Mikið framfaraspor fyrir mannkynið en vinnuaðstæður í árdaga framleiðslunnar hafði hræðileg áhrif á fólkið sem vann við þessa framleiðslu. Það þjáðist af fosfóreitrun sem tók langan tíma að komast fyrir og hörmungar þess voru miklar. Við fórum frá Kristianstad í dag um hálfþrjú leytið. Komum við í upprunarlegu IKEA búðinni í Älmhult. Þær eru allar meira og minna eins þessar búðir en þessi er elst og hún er frekar lítil. Vorum komin hingað til Jönköping um sex. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki að gerast baráttumaður fyrir því að Svíar hægi á akstrinum á þjóðvegum sínum með tilliti til allra þeirra dýra sem þeir drepa með hraðakstrinum. Í þrjátíu ár hef ég furðað mig á öllum þeim mikla fjölda af dýrum sem liggja eins og hráviði meðfram þjóðvegum landsins. Alldrei minnist ég þess að hafa lesið svo mikið sem eina grein um þessa hræðilegu meðferð á blessuðum dýrunum. Líklega finnst þeim betra að amast við hvaladrápi okkar Íslendinga og halda óbreyttum ofsahraða sínum á þjóðvegum Svíþjóðar enda landið stórt og langt á milli áfangastaða.

Engin ummæli: