þriðjudagur, 14. apríl 2009

Annar í Jönköping

Sofiakirkjan.
Það er viðeigandi að birta mynd af kirkju í pistli frá Jönköping eða litlu Jerúsalem eins og Svíarnir kalla þennan bæ stundum sín í milli. Hér eru a.m.k. tuttugu og tveir ólíkir trúarsöfnuðir og eins víst að þeir geti verið fleiri vegna þess að þessar upplýsingar mínar eru þrjátíu ára gamlar. Einn besti vinur minn á námsárunum í Gautaborg var frá Jönköping. Á nemandakvöldi í skólanum barst í tal okkar trúmál. Ég hafði einhver orð um Votta Jehóva (VJ)sem gamli biskupinn okkar hafði varað svo sterklega við. Sagði eitthvað í þá veru að með slíku öfgafólki ætti ég enga samleið. Vinur minn horfði óvenju hvasst á mig við þessi ummæli yfir borðið. Skyndilega dró hann hárið í hnút aftan við hnakka og sagði: "Vertu nú ekki of viss um það Sveinn að ég geti ekki sannfært þig um að gerast Votti Jehova." Það fór sannast sagna um mig hrollur við þessi látbrögð. Saga hans var í sú að hann hafði alist upp sem Votti Jehova af strangtrúaðri móðir. Hann hafði meira segja stundað trúboð í húsum hér og þar. Eftir því sem leið á frásögn hans seig haka mín neðar og neðar. Vinur minn - gat þetta verið? Hann var í raun jafn gott sem landflótta frá Jönköping þessi vinur minn. Hann hafði efast og sagt sig úr söfnuðinum. Þar með var hann sem dáinn gagnvart fjölskyldu sinni og genginn djöflinum á hönd. Við höfum svo sem ekkert rætt þetta frekar í gegnum árin. Ég sagði honum í fyrra að ég hefði verið í Jönköping. Þá sagði hann mér að hann hefði komið í fyrsta sinn til Jönköping árið áður eftir meira en þrjátíu ár til þess að vera við jarðarför föður síns, sem hann hafði ekki hitt öll árin og var hann þó ekki VJ. Þetta hafði hann gert að áeggjan konu sinnar. Hann gat ekki fyrirgerfið föður sínum að hafa lokað á sig líka þar sem hann var ekki VJ. Þau mættu með tvö börn sín sem eru um tvítugt til þess að hitta ættingjana í fyrsta skipti. Hann var mjög tortrygginn gagnvart fólkinu í Jönköping og sagðist hafa orðið smeykur þegar börnin hans voru tekin tali án viðveru hans af ættingjum. Aðspurð sögðu þau hinsvegar að þau hefðu aðeins verið að segja þeim hvað væri gaman að hitta þau og hvað þau gleddust yfir því að hann ætti svo myndarlega fjölskyldu og hefði vegnað vel í lífinu: "Sveinn, þetta voru þau ekki tilbúin að segja beint við mig eftir öll þessi ár. Gagnvart mér hafði ekkert breyst. Ég var enn svo gott sem dauður. Enginn þeirra þorði að koma í eigin persónu og taka mig tali og gleðjast með mér yfir því hversu vel hafði ræst úr mínum málum þrátt fyrir allt." Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa tilfinningumm hans við þessa frásögn, en henni fylgdu mörg velvalin orð. Svo haldið þið að við sem vorum ung á áttunda áratug síðustu aldar hafi aðeins verið að velta fyrir okkur Marx og Adam Smith. Ónei lífið getur verið flóknara en svo að efnahagsmál og pólitík sé það eina sem skipti máli. Kynni mín af Kalla urðu til þess að ég reyni ávallt að spyrja í þaula þegar ég ekki skil og taka engu sem gefnu. Nóg í bili. Kveðja.


Engin ummæli: