sunnudagur, 19. október 2008

Árið nítján hundruð sextíu og átta

Kynslóðin sem braut upp viðteknar venjur upp úr miðbik síðustu aldar er jafnan kennd við 1968. Samkvæmt skilgreiningum fell ég undir þessa kynslóð eða síðari hluta hennar þótt ég hafi aldrei fundið til neinnar sérstakrar samstöðu með þessum hópi. Maður tilheyrði ört stækkandi kynslóðum eftirstríðsáranna. Að öðru leyti átti maður fátt sameiginlegt með 68 hreyfingunni, enda voru það vinstri menn sem réðu ferðinni. Tvennt er það sem setið hefur í minningunni frá árinu 1968. Í fyrsta lagi var það hin efnahagslegu áföll sem við urðum fyrir þegar síldin hvarf og í öðru lagi innrás Sovétmanna inn í Tékkoslavakíu. Hvorutveggja hafði veruleg áhrif á mig og er mér enn í fersku minni. Efnahagslegu áhrifin vegna þess að þetta sumar var ég atvinnulaus, nokkuð sem ég hafði aldrei upplifað áður. Innrásin vegna þess að ég upplifði í fyrsta skipti hversu smáríki má sín lítils gegn ofríkis stórveldis - frelsi almennings væri ekki sjálfsagður hlutur. Nú nákvæmlega fjörtíu árum síðar steðjar að okkur efnahagsleg vá og breska stórveldið hefur sett okkur í herkví þannig að greiðsluflæði gjaldeyris til og frá landinu hefur verið í lamasessi í tvær vikur! Vafalaust munum við vinna okkur út úr þessum vandræðum en það mun taka tíma.

Engin ummæli: