mánudagur, 27. október 2008

Kyrrt í Fossvogi

Það er gott skyggni hér í Fossvogi í kvöld. Þrátt fyrir myrkrið er útsýni ágætt. Það gerir heiðskír himinn og hvít slikja á jörðu. Flugvitinn á Perlunni lýsir með sínu græna og hvíta ljósi upp í himinhvolfið og leiðbeinir flugvélum. Kórónan á Borgarspítalanum er vel upplýst og rautt ljós á toppinum eins og jarðaber á ískúf. Vonandi að ungmennin hinumegin í dalnum séu ekki alvarlega slösuð eftir gassprenginguna. Sjarminn við Fossvoginn er kvöldkyrrðin, kyrrð í dalnum þótt í nágrenni hans séu miklar umferðaræðar. Dalurinn er stórt útivistarsvæði sem bæði Kópavogsbúar og Reykvíkingar geta notið ríkulega. Nú er svolítið kallt úti líklega - 2°C að minnsta kosti. Kveðja.

Engin ummæli: