fimmtudagur, 19. apríl 2007

Fáfræði sagt stríð á hendur.

Á rótarýfundi fyrir nokkru var hún Tinna að segja okkur frá tinnunni utan á Þjóðleikhúsinu og starfsemi í húsinu. Í erindi sínu vitnaði hún í bókina Alkemistann eftir Paulo Coelho. Ég man nú ekki lengur í hvaða samhengi það var nema ef ske kynni að það snéri að því að breyta blýi í gull. Hitt man ég að það sló mig sú hugsun að ég væri nú meiri andsk..... plebbinn. Hér væri hún Tinna að vitna í þessa bók sem milljónir manna væru búnir að lesa, en ég vissi ekki einu sinni um hvað hún fjallaði. Hafði þó heyrt viðtal í Kastljósi við höfund verksins. Ég ákvað með sjálfum mér að ég skyldi lesa bókina við fyrsta tækifæri. Þetta skeytingaleysi mitt gagnvart bókmenntum sem sjálfur þjóðleikhússtjóri vitnaði til gengi ekki lengur. Ég bar með mér svolítinn beyg vegna þess að stundum þegar ég hef ætlað að ganga "æðri" bókmenntum á hönd hef ég lent á bókum svo grútleiðinlegum að ég hef gefist upp á fyrstu blaðsíðunum. Til að gera langa sögu stutta þá las ég Alkemistann í nánast einum rykk og hafði mikla ánægju af sögunni. Ég stoppaði ekki við þessa bók. Því í morgun fyrsta sumardag lauk ég við lestur bókarinnar, A man without a country eftir rithöfundinn Kurt Vonnegut. Það verð ég að segja að ég hef haft mjög gaman af því að lesa þessa bók og á örugglega eftir að lesa meira eftir þennan rithöfund, sem er nýlátinn. Hvet ykkur eindregið til að lesa hana líka, en hann segir á einum stað m.a.: " If I should ever die, God forbid, let this be my epitaph: The only proof he needed for the existence of god was music." Nú þriðja bókin býður en hún er eftir Gabriel García Márquez og heitir Minningar um döpru hórurnar mínar. Hvort að sá lestur á eftir að verða tilefni til frekari umfjöllunar á þessari síðu kemur bara í ljós. Nú svo var Glitnir að gefa mér 1000 kr. til þess að kaupa bók. Hver veit nema maður láti verða að því að kaupa nýtt bókmenntaverk á með Glitnisafslætti. Jæja hef þetta ekki lengra að sinni. Kveðja.

Engin ummæli: