fimmtudagur, 26. apríl 2007

Á sjávarútvegssýningu í Brussel.

Furðufiskar . Hér má sjá dæmi um fiska sem þeir veiða sér til matar hinum megin á hnettinum. Þetta eru fiskar sem gat að líta á sjávarútvegssýningunni í Brussel í vikunni. Það voru Ný-Sjálendingar sem sýndu þetta úrval fiska sem í mínum augum voru sannkallaðir furðufiskar. Bendi ykkur sérstaklega á risahumarinn í miðri mynd. Það þarf ekki marga svona til að metta svangan maga. Við flugum í beinu flugi á Fokker Friendship til Brussel og vorum rúma 5 tíma á leiðinni og tæpa 5 tíma á bakaleiðinni. Gárungarnir spurðu okkur hvort við hefðum komið með "Ameríkufluginu". Við vorum bara stoltir af því að koma fljugandi á "landsbyggðarflugvél". Þetta var hið þægilegata flug, þótt við værum aðeins lengur í loftinu miðað við hraðskreiðustu þotur. Náðum að spjalla heilmikið og hrista saman hópinn á leiðinni. Nú svo sluppum við við verkfallsvesinið á Kastrup sem varð mörgum til trafala og tímasóunnar. Þetta er að sögn kunnugra orðin aðalsjávarútvegssýningin í heiminum. Það er gaman að koma þarna og sjá þann þrótt sem býr í íslenskum sjávarútvegi og jafnframt kynnast því hversu víða í heiminum fólk er að veiða, verka og selja fiskafurðir.

Sýningarhöllin í Brussel Það er tilkomumikið sýningarsvæðið í Brussel. Eins og þið sjáið á myndinni var veðrið eindæma gott og komið sumar og allt grænt. Fyrir utan að sýna sjávarafurðir og fiskvinnslutæki er svona sýning einnig vettvangur fyrir fólk í sjávarútvegi til að hittast og blanda saman geði. Það er gert við ýmis tilefni. Skemmtilegasta stundin er á kvöldin á Grand Plaz þegar Íslendingarnir koma saman og fá sér bjórglas og hefja upp raust sína og taka nokkur lög. Það eru sannarlega tilkomumiklar stundir. Þarna hittir maður marga kunningja sem maður hefur haft við samskipti og ryfjar upp gömul kynni. Kveðja.

Engin ummæli: