þriðjudagur, 4. desember 2018

100 ára fullveldi

Þann 1. janúar 1918 voru Íslendingar 91.368 samtals. Á sama tíma í ár, 100 árum síðar, vorum við 348.450. Það sem fyrst fer um hugann þegar horft er á þessar tölur er í raun spurningin hvað forfeðrunum gékk eiginlega til. Hvernig datt þeim í hug að innan við 100 þúsund manns gætu rekið ein og sér fullvalda ríki á þessari berangurslegu eyju út í miðju Atlantshafi. Fátækasta landið í Evrópu. Dæmið verður enn trylltara þegar haft er í huga að hér var kaldasti vetur í manna minnum, inflúensa sem deyddi fjölda manns og sjálf Katla gaus. Málið hefur líklegast verið of langt gengið til að hætta við allt saman vikunum fyrir 1. desember 1918. Til að gera langa sögu stutta, þá hefur þetta allt samt blessast. Líklegast hefur þjóðin þó aldrei verið eins nálægt því að glata sjálfstæði sínu, alla vega efnahagslegu sjálfstæði og fyrir tíu árum síðan. Þar skall hurð nærri hælum og mikið lán að ekki fór verr. Minnir okkur á að fullveldið er ekki sjálfgefið. En allavega til hamingju með árin 100 og við skulum vona að næstu 100 ár verði jafn farsæl og öldin sem liðin er.

Engin ummæli: