Inngangur
Hún er vel þekkt sagan af útgerðarmanninum sem sagði við fyrrum formann LÍÚ
fyrir rúmum 20 árum að áður en langt um liði yrði hægt að halda aðalfundi
samtakan í kaffistofu LÍÚ. Hann var þar að vísa til þess að útgerðum í
sjávarútvegi færi ört fækkandi.
Vissulega hefur útgerðarfélögum fækkað síðastliðna áratugi en þau hafa jafnframt
mörg stækkað umtalsvert. Það var og hefur verið almenn krafa að nauðsynlegt sé að
í sjávarútveginum sé starfandi fjölbreytileg flóra fyrirtækja. Þannig séu
mestar líkur á að greinin skili mestum ávinningi til samfélagsins.
Krafa um
sjálfbærni
Sjávarútvegurinn er atvinnugrein sem er stór á alþjóðlegan mælikvarða og
sem slík er hún undirstöðuatvinnugrein fyrir fjölbreytilegar stoðgreinar og
nýsköpunarfyrirtæki sem byggja á viðskipum við greinina. Nýafstaðin
sjávarútvegssýning er glöggt dæmi um þetta.
Það hefur verið undirliggjandi viðhorf í samfélaginu og skrifað í lög að sjávarútvegurinn
eigi að vera sjálfbær bæði út frá líffræðilegum og hagrænum sjónarmiðum þ.e. ekki
sé veitt meira en fiskistofnarnir þoli
og hagkvæmni og efnahagslegur ávinningur sé hafður að leiðarljósi.
Aukin
verðmætasköpun
Þessar leikreglur hafa kallað á aukna verðmætasköpun í greininni og nánara
samband við kröfur markaðsins. Hagræðing í greininni hefur verið viðvarandi og
útgerðum hefur fækkað og þær hafa stækkað. Aukin áhersla hefur verið á ferskar
afurðir og bætt gæði. Enn eru frekari tækifæri í þessum efnum eftir því sem
kröfur markaðarins vaxa og tækninni fleygir fram. Minnist í því sambandi ummæla
forystumanns í sjávarútvegi sem sæi fyrir sér að í framtíðinni yrði komið með
aflann lifandi til hafnar og hann seldur þannig til þess að mæta síauknum
kröfum um ferskleika afurða.
Sá
sem hér heldur á penna þykist ekki sjá fyrir um framtíðina í atvinnugreininni
að öðru leyti en því að hlutverk hennar verður áfram að selja hágæða
sjávarafurðir á sem hæstu verði á hverjum tíma.
Alþjóðleg samkeppni
Samkeppnisaðilar
okkar í nálægum löndum fylgjast náið með okkur og munu leitast við að ná
sambærilegum eða betri árangri til framtíðar. Í Noregi er vaxandi umræða um
nauðsyn þess að endurskilgreina þær kröfur sem gerðar eru til
atvinnugreinarinnar með aukinni áherslu á hagræn og viðskiptaleg sjónarmið í
rekstri sjávarútvegsfyrirtækja þar sem því verður við komið. Sá tími líður senn
undir lok að jafnvel hinir ríku frændur okkar í Noregi geti rekið
sjávarútvegsfyrirtæki á félagslegum grunni.
Höfundur er hagfræðingur
LÍÚ.
Skoðun í Fiskifréttum 16.10.2014