föstudagur, 6. september 2024

Utan til náms

         17. júní 1975 í heimsókn til Oslo ákváðum við Sirrý að hefja nám erlendis þá um haustið. Við vorum að íhuga að flytja til Noregs, en eftir heimkomu varð niðurstaðan sú að við flyttum til Gautaborgar. Engan þekktum við þar, en fengum nafn Sigríðar Hannesdóttur, sem bjó þar, skólasystur Björns, stjúpa Sirrýjar. Hún veitti okkur ómetanlega aðstoð þegar við vorum að koma okkur fyrir og skrá okkur í háskólann.  Það sem réði  m.a. valinu á Gautaborg var að þar var kennd félagsráðgjöf og hagfræði við háskólann

        Á leiðinni út í flugvél Flugfélags Íslands í byrjun september þetta ár var einnig Sigurður tengdafaðir minn á leið í viðskiptaferð til Noregs að skoða fiskiskip. Með honum í för var útvegsmaður frá Stöðvarfirði, Guðmundur Björnsson, sem ég heyrði síðar að gárungarnir hafði kallað gælunafninu Lilla. Það var ekkert lítið við þennan mann. Guðundur var mjög gildur, en vart meðalmaður á hæð. Þegar hann settist í sætið varð að losa um annan armin af sætinu, svo að hann gæti sest.

        Ég gleymi aldrei orðaskiptum þessa ágæta manns og flugfreyjunnar þegar hún reyndi að spenna utan um hann framlengda sætisólina: ”Svona vina, þetta er alger óþarfi hjá þér að reyna þetta, þú getur verið viss um að ég fer ekkert!” Það reyndust orð að sönnu. Hann sat fastskorðaður í sæti sínu alla leiðina, haggaðist ekki. Leiðir okkar lágu ekki aftur saman eftir þessa flugferð. Ég man ekki hvað við ræddum á leiðinni, en í minningunni fór vel á með okkur. Man þó að mér þótti mikið til þessa manns koma, sem var að fara til útlanda að kaupa togara. Hann var fyrsti starfandi útvegsmaðurinn, sem ég kynntist. Seinna átti fyrir mér að liggja að vera í þjónustu íslenskra útvegsmanna í rúma þrjá áratugi. Enginn veit sína ævi o.s.f.

miðvikudagur, 4. september 2024

Örlög íslenskra fyrirtækja

Eru það örlög íslenskra fyrirtækja, ef þau sýna árangur í starfsemi að enda í eigu erlendra aðila? Marel hf, Össur hf, Keraces hf, Nói Sirius hf, svo nokkur séu nefnd. Hvenær verða önnur lykilfyrirtæki líka seld eins og Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur? Þetta þarf að ræða með skýrum hætti. Í sjávarútvegi eru lög sem banna erlendum aðilum meirihluta eignarhald og skipstjóri á íslenskum fiskiskipum verður að vera íslenskur ríkisborgari. Þetta er að sjálfsögðu til að koma í veg fyrir að fiskimiðin lendi í erlendum höndum. Af hverju eru ekki sambærileg ákvæði varðandi jarðarkaup erlendra fjárfesta á jörðum? Það er eins og tíðarandinn vinni gegn öllu því sem íslenskt er.