miðvikudagur, 10. júlí 2013

Gengið á Lómagnúp


Á Lómagnúpi með Vatnajökul í bakgrunni.


Ég gékk á Lómagnúp þann 4. júlí sl með félögum úr gönghópnum Skálmurum, sem er gönguhópur tengdur Skaftfellingafélaginu í Reykjavík. Lómagnúpur er 688 hátt standberg sem gnæfir yfir suður úr Birninum vestan Núpsvatna á Skeiðarársandi. Vestan við fjallið er bærinn og kirkjustaðurinn Núpsstaður. Þar bjó hinn kunni vatna- og leiðsögumaður Hannes Jónsson. Af honum eru til margar frásagnir og sögur en hann lést árið 1968. Gönguleiðin í þessari ferð á Lómagnúp var þessi: Gengið upp Hvirfildal að austan, upp að vörðunni, þvert yfir og gengið svo inn Núpinn. Gengið nánast inn að næsta fjalli sem er Björninn, þar vestur og yfir Núpsstaðaheiði. Farið niður rétt vestan við bæinn Núpsstað. Allt í allt tók þessi ganga rúma 10 tíma og vegaleiðin var um 20 km. Veður til göngu var gott en þegar leið á kvöldið kom skýjahula yfir svæðið og undir lokin fór að rigna. Fjallasýn og útsýni yfir sandana til beggja átta er ógleymanleg. Þannig segir í kvæðinu Áföngum eftir Jón Helgason:

Vötnin byltast að Brunasandi,
bólgnar þar kvikan gljúp;
landið ber sér á breiðum herðum
bjartan og svalan hjúp;
jötunninn stendur með járnstaf í hendi
jafnan við Lómagnúp, 
kallar hann mig, kallar hann þig...
kuldaleg rödd og djúp.


Það voru þreyttir og ánægðir göngugarpar sem klöngruðust niður bratta hlíðina í ferðalok hjá Núpsstað. Enn einum stóráfanga var náð og ástæða til þess að fagna að allt gékk stóráfalla laust. Kveðja.


















Engin ummæli: