laugardagur, 13. júlí 2013

Söngfélag Skaftfellinga fjörtíu ára.


Ávarp flutt á vorkaffi Skaftfellingafélagsins í Reykjavík þann 5. maí sl. í tilefni 40 ára afmælis Söngfélags Skaftfellinga.

Góðir gestir.
Söngfélag Skaftfellinga er fjörtíu ára í ár. Það er því vel við hæfi að minnast í nokkrum orðum upphafsins og kórstarfsins.
Stofnár kórsins er miðað við fyrstu söngæfingu þann 25. mars 1973.
Starfsemi Söngfélags Skaftfellinga er samofin Skaftfellingafélaginu í Reykjavík. Kórinn hefur alla  tíð notið velvildar og stuðnings þess. Allar götur frá 1980 hefur kórinn haft afnot af  húsakynnum  Skaftfellingafélagsins, Skaftfellingabúð og það stutt við starfsemina með margvíslegum hætti.
 Ekkert félag og enginn kór getur lifað jafn kröftugu lífi nema fyrir það að að starfinu komi fjölmargir félagar sem halda starfseminni gangandi. Það væri of langt mál að telja þá alla upp.
Í átthagafélögum eins og Skaftfellingafélaginu í Reykjavík og Söngfélagi Skaftfellinga fer fram mikilvæg menningarstarfsemi. Þau tengja saman fólkið í gömlu átthögunum við brottflutta sveitunga og ættmenni. Þannig viðhalda þau tengslum og skilningi milli þéttbýlis og dreifbýlis sem sannarlega er mikil þörf á í okkar samfélagi.
Þær fjölmörgu tónleikaferðir sem kórinn hefur farið um Skaftafellssýslur og víðar allt frá stofnun í fjörtíu ár og þær góðu heimsóknir sem við höfum fengið þaðan er skýrt dæmi um þá eflingu menningarlífs sem félögin stuðla að.
Félagar í kórnum sem nú eru rúmlega fjörtíu talsins eru langflestir ættaðir úr annarri hvorri sýslunni. Síðan erum við nokkur sem erum ekki Skaftfellingar að langfeðratali en hefur rekið á fjörur þessa félagsskapar og kunnum því vel.
Söngfélagið hefur haft sína eigin stjórn frá 1974. Fyrsti formaður stjórnar var Jón Hilmar Gunnarsson. Núverandi formaður Söngfélagsins er Kolbrún Einarsdóttir.
Kórinn hefur frá upphafi haft fjóra söngstjóra: Jón Ísleifsson, Þorvald Björnsson, Víolettu Smid og núverandi kórstjóra Friðrik Vigni Stefánsson.
Violetta Smid var gerð að heiðursfélaga í Söngfélagi Skaftfellinga er hún hætti sem kórstjóri eftir aldarfjórðungsstarf. 
Stærsta verkefni kórsins á afmælisárinu var að syngja inn á nýjan disk en upptökum lauk þann fyrsta maí síðastliðinn. Tvívegis áður hefur kórinn gefið út plötu og disk. Þá voru sérstakir afmælistónleikar haldnir í apríl síðastliðinn sem voru vel sóttir og tókust mjög vel.
Fjórir kórfélagar eru stofnaðilar kórsins. Það eru þau Páll Jóhannesson tenór, altarnir  Bjarndís og Valgerður Sumarliðadætur og Einar Brynjólfsson bassi. Margir kórfélagar hafa verið með um áratuga skeið.
Ég vil að lokum óska okkur öllum til hamingju með árin fjörtíu í starfsemi kórsins. Allt er fertugum fært segir máltækið og megi það einnig eiga við um Söngfélag Skaftfellinga.
Þakka ykkur fyrir.



Engin ummæli: