föstudagur, 31. desember 2004

Nú árið er liðið í aldanna skaut....

Já enn eitt árið er liðið í aldanna skaut. Árið 2004 hefur um margt verið viðburðarríkt ár. Mikil vinna, ferðalög til útlanda, stórafmæli maka, góður námsárangur barna og síðast en ekki síst almennt góð heilsa. Með öðrum orðum margt að þakka fyrir. Við erum stöðugt minnt á það að ekkert er sjálfgefið í þessari veröld. Þvert á móti geta aðstæður í einu vetfangi breytt öllu okkar lífi. Hörmungarnar í SA - Asíu eru í flokki slíkra áminninga. Við Íslendingar þekkjum ofurkrafta náttúrunnar vel og þær hörmungar og eyðileggingu sem þeir geta haft í för með sér. Við þekkjum líka hversu gjöful náttúran er og hversu mikið við eigum undir gjafmildi hennar. Hugur okkar og samúð er þó nú hjá þeim mikla fjölda sem á um sárt að binda. Hjá frændum okkar í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Bretlandi og öðrum þjóðum sem hafa misst svo marga. Megi Guð almáttugur vera þeim nálægur í sorg þeirra og missi. Bænir okkar snúa að erfiðum aðstæðum þessa fólks. Hugleiðingar um það hvort nýtt ár verður betra eða verra en það sem er á enda skiptir einhvern veginn engu máli.

föstudagur, 24. desember 2004

Gleðileg jól

Bloggsíðan Brekkutúnsannáll óskar ykkur öllum gleðileg jól og vonar að þið farið vel með ykkur um jólin og ykkur líði vel. Jólanóttin nálgast hér í Fossvogsdalnum. Jólaljósin tendruð, hvít jörð og Fossvogskapella uppljómuð í vetrarmyrkrinu. Kaldur vindur hvín í rjáfri og vetrarríkið ræður. Það er ekki hægt að hugsa sér neitt íslenskara en þetta.

laugardagur, 18. desember 2004

Frakkland, ostar, vín og villibráð.....

Jæja nennir nokkur orðið að koma inn á þessa síðu. Ef ske kynni að einhver kíki hér inn þá ætla ég að pára nokkrar línur. Það hefur ýmislegt drifið á daga mína síðan ég skrifaði hér síðast. Í desember byrjun, nánar tiltekið 3. til 6. desember skrapp ég ásamt Helga Sigurðssyni vini mínum til Frakklands að skoða nýja sumarhúsið hans. Þetta var löng helgarferð og heppnaðist í alla staði vel. Snæddum fyrsta kvöldið villisvín, annað kvöldið dádýr og þriðja kvöldið héra í aðalrétti. Ég kann ekki að nefna alla forréttina og eftirréttina ostana og rauðvínin dýru og ljúfu. Maður var rauðvínsleginn þegar heim var komið. Við keyrðum víða um Burgundý hérað skoðuðum klausturbyggingar, vínekrur í vetrarbúningi, sjúkrahús frá 13. öld og ýmislegt fleira.
Við Sirrý fórum á söngleikinn Edith Piaf í Þjóðleikhúsinu núna í desember. Brynhildur Guðjónsdóttir heitir unga söngkonan sem syngur Piaf og gerir það mjög vel að. Maður gerir ekki nóg af því að fara í leikhús. Sjálfur fór ég á tónleika í píanóskólanum mínum þann 14. desember þar sem ég spilaði tvö lög fyrir fullorðna nemendur. Kórstarfið hefur verið á fullum krafti í vetur, þótt ekki hafi ég getað tekið þátt í því á núna fyrir jólin. Nú er jólaundirbúningurinn kominn í fullan gang. Nóg er að stússa í kringum þá hátið.