Ég er sjóveikur. Fyrir mörgum árum var mér falið að leiðsegja stjórn norskra útgvegsmanna með Akraborginni upp á Skaga, ásamt stjórn íslenskra útvegsmanna. Við vorum ekki komnir út úr höfninni í Reykjavík þegar ég fann til sjóveiki. Móts við Hvalfjörð lá ég afvelta í sjóveiki á gangi skipsins. Þegar komið var upp á Akranes var mér nokkur huggun í því að heyra að framkvæmdastjóri norsku útgerðanna hafði einnig verið mjög sjóveikur. Ég man fyrst eftir því upp á Akranesi, hvar ég sat á hækjum mínum gegnt Frystihúsi Haraldar Böðvarssonar hf og að Haraldur Sturlaugsson sá auman á mér og tók mig með sér heim. Til að fá ráð hjá fagmanni hringdi hann í Ingibjörgu eiginkonu sína. Hún er hjúkrunarfræðingur og gegndi þá embætti heilbrigðisráðherra! Hann lýsti veikindum mínum í símann. Það stóð ekki á ráðleggingum: Gefðu honum Gammel Dansk og láttu hann leggjast á sófann. Við fylgdum þessu. Eftir andartak bráði af mér og ég var eins og nýsleginn túskildingur. Minnist þess ekki að hafa þakkað Haraldi og heilbrigðisráðherra björgunina nógsamlega, en geri það hér með. Líklegast er ég einn fárra um björgun á heilsu minni beint frá skrifstofu sjálfs ráðherra. Kvöldið enduðum við svo í bröggunum í Hvalfirði hjá Kristjáni Loftssyni og dreyptum á romminu hans, blönduðu heitu vatni. Norðmennirnir voru þess fullvissir að þeir væru næst himnaríki á þessu kvöldi. En það er önnur saga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli