mánudagur, 9. júní 2008

Afpöntun takk....

Ég fór á hádegisfyrirlestur í dag í Odda sem bar yfirskriftina fjármálakreppan 2007 - 2010. Fyrirlesari var Robert Wade prófessor við London School of Economics. Fróðlegur fyrirlestur en myndin sem hann málaði upp var æði dökk. Hann vitnaði í breska seðlabankastjórann Melvyn King sem sagði í ræðu í fyrra að "NICE" (non inflationary consistantly expansionary) áratugurinn væri liðinn, sem að sjálfsögðu mætti einnig kalla góða áratuginn upp á íslensku. Það kom upp í huga minn gamall frasi sem eignaður er Tage heitnum Danielsson, sænskum grínista: "Om världens undergång är nära, låt os genast avbeställa den." Í lauslegri íslenskri þýðingu fyrir þá sem ekki skilja sænsku:" Ef heimsendir er í námd, skulum við einhenda okkur í því að afpanta hann." En að öllu gamni slepptu þá var prófessorinn þeirrar skoðunar að bankarnir hefðu ekki staðið sig. Þeir hefðu tekið of mikla áhættu vitandi að samfélagið yrði að taka ábyrgð á þeim ef illa færi vegna samfélagslegs mikilvægis þeirra. Hann taldi að endurskoða yrði reglugerðarverk fjármálageirans vegna þess að í því væru alvarlegir gallar, sem sköpuðu hagsmunaárekstra. Í því sambandi benti hann á þessi matsfyrirtæki sem eru að gefa fjármálastofnunum lánshæfiseinkunnir. Það væru bankarnir sem greiddu lánshæfisfyrirtækjunum þjónustuna og bankarnir gætu sjálfir valið matsfyrirtækin. Matsfyrirtækin eru jafnframt að bjóða bönkum "bankaafurðir" sem eru ekki teknar út af hlutlausum aðilum. Hann kenndi fjáraustri til húsnæðiskaupa í USA um hvernig er komið. Taldi hann að tekið gæti mörg ár að greiða úr vandanum og staðan í bankageiranum ætti aðeins eftir að versna. Við skulum vona að þessi mynd sé ekki jafn slæm og prófessorinn dró upp í þessum fyrirlestri. En líklega vissara að fara varlega á meðan þetta ástand varir.

Engin ummæli: