Ég las fyrir nokkrum árum bókina The Great Influenza eftir John M Barry. Áhugi minn fyrir þessari bók og nokkrum til viðbótar um þetta efni snúa að kjarna hagfræðinnar þ.e.a.s. hegðun mannsins. Það sem sat eftir við lesturinn voru nokkrir magnþrungnir punktar. Í fyrta lagi var verið að glíma við a.m.k. tvær veirur og var önnur sýnu verri. Þannig sluppu þeir betur sem fengu vægari sýkinguna áður en sú illvíga kom í ljós, vegna þess að þeir höfðu myndað ónæmi. Í öðru lagi hvernig fyrri heimstyrjöldinni 1918 var í raun sjálfhætt vegna mikilla veikinda og hárrar dánartíðni hermanna beggja megin víglínunnar. Í þriðja lagi hvernig samfélög brotnuðu vegna þess að heilbrigðiskerfið, löggæsla og fyrirtæki lokuðu og fólk lá bjargarlaust heima. Í fjórða lagi hverng menn sem voru að leita að mótefni fórnuðu sér við hættulegar aðstæður. Talið er að milli 50 og 60 milljónir manna hafi látist af völdum spænsku veikinnar. Líklegast eru veirusýkingar af því tagi sem við erum að upplifa núna ein mesta ógnin sem mannkyninu stafar hætta af. Aukin ferðalög milli heimshluta og samskipti fólks úr ólíkum áttum veldur því að þessi hætta mun verða enn meiri er fram liða stundir. Plágur af ýmsu tagi hafa fylgt mannkyninu gegnum tíðina. Vissulega hefur mikið áunnist í því að verjast þessum hættulegu sýkingum en samt erum við berskjölduð þegar nýjar sýkingar blossa upp sem við höfum ekkert mótefni gegn. Við skulum vona að þessi veirusýking verði ekki jafn illvíg og í spænsku veikinni.
föstudagur, 26. mars 2021
miðvikudagur, 24. mars 2021
Lífið er ferðalag
Eythor Edvardsson minntist í gær jarðarfarar sem faðir minn annaðist 1997. Hann spurði mig hvort ég vissi hver sá látni var og hvort ég mundi skilaboðin í ræðunni. Eftir smá umhugsun rifjaðist þessi saga upp: Það hefur verið hann Hagbart Knut Edwald frá Rauðamýri, sem var þar vinnumaður. Efnislega sagði pabbi að lífið væri undarlegt ferðalag. Þegar hann kom 6 ára gamall til Arngerðareyrar til sumardvalar í Tungu var enginn til að taka á móti honum. Þar sem hann stóð þarna vegalaus gaf sig að honum ungur maður, nefndur Hagbart sem sagðist mundi fylgja honum í Tungu. Leið þeirra lá aftur saman 60 árum síðar. Það kom í hlutverk pabba að flytja yfir þessum velgjörðarmanni sínum kveðjuorð og guðs blessun í ferðalok. Inntakið í minningarorðunum var að líf okkar er ferðalag og á leiðinni mætum við fólki þar sem leiðir krossa. Í þessu tilfelli á unga aldri og svo aftur við ferðalok Hagbarts. Það var æskuvinkona pabba frá Ísafirði sem sá um jarðarförina. Hún hét Borghild Edwald og er móðir Kristjáns Þórarinssonar stofnvistfræðings SFS. Lífið er undarlegt ferðalag.
föstudagur, 5. mars 2021
Kolbrún Hjartardóttir minning
Í dag var jarðsungin frá Kópavogskirkju föðursystir mín Kolbrún Hjartardóttir kennari og sagnfræðingur. Kolbrún var fædd árið 1935 á Ísafirði og flutti til Reykjavíkur 11 ára gömul. Hún hóf starfsferil hjá VSÍ en vann lengst af sem kennari við barnaskóla. Síðustu ár starfsferlis síns vann hún í Kópavogi. Kolbrún var mikill náttúru unnandi, elskaði að ferðast og far í gönguferðir um Ísland. Hún ferðaðist líka víða um heim. Hennar er minnst, sem góðrar frænku, sem ræktaði frændgarð sinn. Jarðarförin fór fram í kyrrþey að ósk hennar. Blessuð sé minning Kolbrúnar frænku.
mánudagur, 1. mars 2021
Skjálftahryna á Reykjanesi
Við upplifum marga skjálfta á bilinu 4 til 5 á Richter skala þessa síðustu daga eða frá 24. febrúar. Sérfræðingar telja að þessa skjálfta megi reka til flekaskilanna. Þeir útiloka þó ekki eldsumbrot á Reykjanesi vegna þessara jarðhræringa. Telja það reyndar frekar ólíklegt. Önnur vá sem okkur gæti verið búin er að þessi hryna leiði úr leysingi stóran skjálfta austur af Brennisteinsfjöllum í átt að Bláfjöllum sem gæti orðið 6,5+ á Richter skala. Það sem hefur vakið óhug minn er hvað tilmæli Almannavarna hafa verið almenns eðlis. Rætt er um að gæta þess að hafa varan á sér varðandi þunga hluti í hillum. Borgarstjóri hefur rætt um að engin rýmingaráætlun sé varðandi höfuðborgarsvæðið! Ég hef undrast hversu lítið hefur heyrst í kjörnum stjórnendum landsins. Umræðan hefur nánast verið í höndum sérfræðinga. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að heyrast meira í kjörnum fulltrúum okkar við þessar aðstæður. Þeir eigi að setja sig inn í það hvers er að vænta og tala fyrir mismunandi sviðsmyndum. Ef þeir telja enga hættu í stöðunni eiga þeir að lýsa þeirri skoðun en ekki þegja þunnu hljóði.