laugardagur, 17. nóvember 2007

Skattamál.

Arthur B Laffer Fór á fyrirlestur bandaríska hagfræðingsins Arthur B Laffer sem haldinn var á vegum SA í Þjóðmenningarhúsinu í hádeginu á fimmtudaginn. Hann er einn af þessum frægu hagfræðingum sem koma frá USA. Það var frískandi og sannarlega einnar messu virði að hlusta á hann. Hann flutti mál sitt af sannfæringu, öryggi og innsæi þannig að maður fylgdist með því sem hann sagði frá upphafi til enda. Því miður eigum við enga svona ræðumenn meðal okkar hagfræðinga. Minnti mann á þegar sjálfur Milton Friedman kom hérna um árið. Laffer fjallaði um skattamál og tengdi umfjöllun sína við bandaríska hagsögu á tuttugustu öldinni. Hann hældi okkur Íslendingum fyrir framúrskarandi árangur í efnahagsmálum síðastliðinn hálfan annan áratug. Hann sagði að við hefðum sannað kenningu sína um gildi skattakúrfunnar, sem kennd er við hann.
Laffer kúrfan. Kúrfan er til að minna á að lækkun skattprósentu geti leitt til þess að skatttekjur aukist. Í máli hans kom einnig fram að skattahækkun um eina krónu geti í raun kostað ríkið tvær krónur til viðbótar þannig að tilætluð skattahækkun skili sér ekki til ríkisins í auknum skatttekjum. Arthur B Laffer er á því að lækka eigi alla skatta og helst hafa það að leiðarljósi að afnema þá ef þeir eru óþarfir, nema ef til vill "syndaskatta" sem notaðir eru til þess að draga úr neyslu á t.d. áfengi og tóbaki. Skattpíning hafi letjandi áhrif á vinnugleði fólks og það séu tekjur eftir skatta sem skipti fólk höfuð máli. Þetta álit hans snérist ekki um það hvar fólk væri í pólitík til hægri eða vinstri, heldur um almenna skynsemi. Hann gerði lítið úr miklum viðskiptahalla okkar Íslendinga, taldi hann gott dæmi um það lánstraust sem við hefðum á alþjóðlegum markaði. Aðrir væru tilbúnir að lána okkur fjármagn til uppbyggilegra verkefna. Að vísu held ég að við ættum nú ekki að leggja of mikið upp úr þessari staðhæfingu í ljósi þess að við erum að eyða of miklu í neysluvarning, sem ekki mun gefa af sér nauðsynlegan arð til þess að greiða skuldir. Laffer endaði á því að minna á að hagtölur væru ekki bara einhverjar tölur á blaði heldur segðu þær til um hlutskipti fólks. Atvinnuleysi væri grafalvarlegur vandi þeirra fjölskyldna sem lentu í slíku. Þessvegna væri það gott mál að atvinnuleysi væri lítið og stjórnvöld ættu ekki að beita sér í því að auka atvinnuleysi. Ég er sannfærður um að þessi fyrirlestur eigi eftir að hafa víðtæk áhrif í íslensku efnahagslífi á næstu misserum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir ahugaverdar upplysingar