sunnudagur, 28. febrúar 2010
Bókamarkaðurinn í Perlunni.
Við erum ólík um margt. Höfum mismunandi skoðun á flestu. Aðstæður okkar eru ekki þær sömu. Væntingar okkar fjölbreytilegar og áherslur. Eitt er þó öðru framar sem sameinar okkur þrátt fyrir allt. Það er málið, íslenskan. Bókamarkaðurinn í Perlunni er óskastaður þúsunda okkar. Á meðan hann stendur yfir komum við mörg saman þar stundum oftar en einu sinni. Kliður er í lágmarki og segja má að við þegjum saman á meðan við skoðum framboð bóka. Ég er búinn að fara tvisvar sinnum og keypt allt of mikið af bókum sem ég hef takmarkað pláss fyrir. Samt fer maður á þennan markað ár eftir ár. Bókarverðinu er stillt í hóf og hægt að gera kjarakaup á mörgu bókmenntaverkinu. Ég hef gróflega flokkað það sem ég hef keypt á þessum markaði. Efst á listanum er ýmis þjóðlegur fróðleikur, mannlíf á liðnum áratugum og öldum. Bækur um sjávarútveg, vesturfara, tónlist, trúmál, heimspeki og ævisögur. Þetta eru helstu málaflokkarnir og þýðir það í raun að ég verð að fara yfir megnið af framboðinu - vandlega. Kveðja.
föstudagur, 26. febrúar 2010
Ósómi í prófkjörum.
Var upplýstur um það í dag af trúverðugum aðila með ákveðnum dæmum að svo langt væri stundum gengið í prófkjörum að þess væru dæmi að félögum í íþróttafélögum væru greiddir peningar fyrir að ganga í flokka og kjósa ákveðna frambjóðendur. Hvernig getum við vænst þess að byggja upp heilbrigt samfélag sem byggir á lýðræðislegum hefðum, þar sem hagur almennings er í fyrirrúmi, ef svona aðferðir viðgangast. Svarið liggur í augum uppi það er ekki hægt. Ég átti samtal við aðila í dag sem unnið hefur að prófkjörum og þetta dæmi kom honum ekki á óvart. Hann sagði að hann hefði komið að prófkjörum þar sem boðnir hefðu verið gemsar/símar og áfengi en að vísu aldrei beinar peningagreiðslur. Svar hans við því hvort svona aðferðir samræmist eðlilegu siðferði var að þetta væri til marks um hvað aðilar væru tilbúnir að ganga langt til þess að vera í sigurliðinu á kosningarvökunni. Sigurinn væri það eina sem skipti máli. Fólk sem er tilbúið að beita jafn siðlausum aðferðum í stjórnmálum er lýðræðinu stórhættulegt. Sagt er að lýðræðið sé brothætt en sé það besta sem við höfum. Lýðræði sem byggir á svona aðferðum er aftur á móti fársjúkt og í molum. Nóg í billi. Kveðja.
miðvikudagur, 24. febrúar 2010
Góð ummæli.
Fyrrum utanríkisráðherra USA Alexander Haig lést fyrir nokkrum dögum 85 ára gamall. Af því tilefni var haft samband við Henry Kissinger kollega hans til þess fjalla um Haig. Ummæli Kissingers eru eftirminnileg. Hann lagði á það áherslu að umfram allt hefði Alexander Haig verið maður sem bar þjóðarhag umfram eigin hagsmuni í þjónustu sinni. Ég efast um að hægt sé að fá betri ummæli fyrir þjónustu á opinberum vettvangi. Hvað skyldu margir íslenskir stjórnmálamenn uppfylla skilyrði Kissingers til að fá svona umsögn. Það fáum við víst aldrei að vita.
föstudagur, 19. febrúar 2010
Olympíuleikar í Vancouver Það er með ólíkindum hvað olympíuleikarnir í Vancouver í Kanada fara hljótt. Seint á kvöldin er sýnt frá þessum stórviðburði í ríkissjónvarpinu. Ég prísa mig sælan að vera ekki ofurseldur RÚV í þessum efnum og geta leitað á náðir erlendra stöðva. Gaman að fylgjast með íshokký og bruni kvenna. Mínir menn í Tre kornor virðast vera í nokkuð góðum gír. Hef verið að fylgjast með þeim í leik gegn Hvít - Rússum, hörkuspennandi leik. Við eigum því miður ekki afreksmenn í vetraríþróttum en það er fjöldi fólks sem hefur ánægju af að fylgjast með vetrarleikunum.
miðvikudagur, 17. febrúar 2010
Kominn úr landi snjómokaranna.
Þetta var indæl ferð til Svíþjóðar og heimsóknin til fjölskyldunnar að Hamri hin ánægjulegasta. Ferðin gékk vel fyrir sig heim á leið. Allt stóð eins og stafur á bók, lestaráætlun og flugáætlun, þannig að það er yfir engu að kvarta. Að vísu er ég svolítið syfjaður vegna þess að sænskurinn, nágrannar Hjartar og Ingibjargar hafa verið að vakna fyrir allar aldir til þess að fara út og skafa nokkrar snjóflyksur á hverjum morgni sem fallið höfðu á stéttina yfir nóttina. Konan á móti er búinn að gera þetta á hverjum morgni. Fyrst notaði hún járnskóflu, næsta dag notaði hún kúst og í morgun notaði hún plastsköfu klukkan fimm að morgni! Þetta bardús í henni vakti mig þar sem glugginn á herberginu mínu snéri út að sameiginlegum gangstíg. Hún er ekki ein um þetta því þau gera þetta fleiri nágrannarnir og þegar við vorum að fara í lestina í morgun gengum við fram á enn einn nágrannann. Mikið rétt hann var að skafa nokkrar snjóflyksur á náttslopp og berlappaður í inniskóm! Mér datt nú bara í hug blöðrubólga þarna sem við heilsuðum blessuðum manninum upp úr klukkan sjö að morgni. Talandi um að Svíar í Skåne séu óvanir snjó en fyrr má nú fyrr vera. Kveðja.
föstudagur, 12. febrúar 2010
Kristianstad
Komum til Kristianstad í dag. Sjö stiga frost og snjór yfir öllu. Í kvöld snjóaði meira. Fólk orðið þreytt á þessari kuldatíð. Hitinn í morgun var um fjórar gráður í plús á leiðinni til Keflavíkur. Þannig að það er ellefu gráða hitamunur. Sóttum Jóa og Svenna á leikskólann í dag. Mikið sem stendur til um helgina, en nafni á afmæli þann fimmtánda febrúar. Þórunn og Sveinn voru með okkur í flugvélinni út. Þau verða í Köben yfir helgina og munu jafnvel koma hingað um helgina. Kveðja.
sunnudagur, 7. febrúar 2010
Stokkseyrarfjara
Fjaran við Stokkseyri.
Við fórum austur fyrir fjall í dag og nutum fjörunnar við Stokkseyri. Það er einstakt að hafa alla þessa miklu brimströnd meira og minna fyrir sjálfan sig. Jörðin marauð og frískur svalur hafvindur blés og frískaði andlitið. Það er svo róandi að hlusta á brimið skella á svörtu Þjórsárhrauninnu sem teygir sig þarna út í Atlantshafið. Veltum því fyrir okkur hverju þetta sætti. Tilgáturnar voru m.a. þær að þetta mætti rekja til veru okkar í móðurkviði nú eða enn lengra til þeirrar stundar er við komum upp úr hafinu og gerðumst landverur. Það er ekki að undra að Páll Ísólfsson tónskáld hafi átt sitt athvarf við þessa stórbrotnu strönd. Hann hefur ekki þurft að sækja langt laglínurnar í Brennið þið vitar. Kveðja.
laugardagur, 6. febrúar 2010
Skálmað í Greniskógi.
Fór góðan hring í dag í Greniskógi. Aðstæður voru hinar bestu til útiveru enda var töluverður fjöldi á gangi á svæðinu í dag. Gékk í góðan klukkutíma og endaði svo í heita pottinum i SK. Þetta gerist ekki betra. Vandfundin er hressilegri hreyfing en ganga í fjölbreytilegri íslenskri náttúru. Veðrið síðustu vikur hefur verið kjörið til útiveru. Ég var að gantast við amerískan vin minn í Seattle sem er sér meðvitaður um þau umverfisvandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir og skellti á hann að nú værum við að njóta hnatthlýnunarinnar á Íslandi. Minn maður klikkaði ekki þrátt fyrir allar sínar áhyggjur af þessum málaflokki. Hann sagðist vel geta unnt okkur Íslendingum þess að njóta hlýnunarinnar. Það væri kominn tími til þess að við fengjum að koma inn úr kuldanum. Ég hef grun um að hann hafi líka haft samskipti okkar við Breta og Hollendinga í huga. Kveðja.
Mynd: Kristinn Kjartansson.
föstudagur, 5. febrúar 2010
Lævís áróður
Augljóslega eru einhverjir spunameistarar á ferli sem halda því fram að óhætt sé að samþykkja Icesave reikninginn upp á þrjá og hálfan milljarð punda vegna þess að það komi aldrei til þess að við borgum. Með öðrum orðum okkur verði gefið þetta eftir þegar fjær dregur. Þetta er afar varhugaverður málflutningur og ábyrgðarlaust tal. Þeir sem tala svona hafa ekkert fyrir sér í slíkum málflutningi. Í þessu gildir eins og öðru að maður stendur við réttmætar skuldbindingar og skrifar ekki upp á ábyrgð sem maður getur eða vill ekki veita. Allra síst ef þær eru ósanngjarnar að bestu manna yfirsýn.
miðvikudagur, 3. febrúar 2010
Vorlauf að vetri
Var á söngæfingu í kvöld. Enduðum á að syngja Vorlauf eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Fallegt ljúft lag sem söngstjórinn er mjög hrifinn af. Æfingar byrjaðar á fullu í kórnum og afskaplega gefandi að mæta á æfingar og syngja með félögunum. Kveðja.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)