
Allt á sinn tíma, upphaf og endi. Nú árið er að líða í aldanna skaut. Þetta hefur verið viðburðarríkt ár, gott og gjöfult fyrir okkur hér í Brekkutúni. Fyrst er að nefna að við fengum okkar fyrsta barnabarn, Svein Hjört, um miðjan febrúar. Við höfum haft góða heilsu og gert víðreist á árinu. Ferðin til Utah, California, Arisona og Nevada veður lengi minnisstæð. Dvöl í London og heimsókn til Kristianstad í Svíþjóð á nýtt heimili Hjartar, Ingibjargar og Sveins Hjartar. Allt eru þetta mikilvægar perlur í perlufesti minninganna. Við höfum haft í mörgu að snúast bæði í vinnu og frítíma. Stundum svo að manni hefur stundum jafnvel fundist nóg um. Það er þó yfir engu að kvarta sem betur fer. Jæja, ég ætla ekki að fara að tíunda allt annað sem á dagana hefur drifið. Annálsritunin verður að duga hvað það varðar. Myndin sem fylgir þessum pistli er af flugeldasýningu sem var yfir Perlunni í vikunni. Ég vona að þið eigið öll ánægjulegt kvöld. Hugur okkar hér í Brekkutúni er hjá ykkur og með ykkur hvar svo sem þið dvelið á þessum tímamótum. Við vonum að nýtt ár færi ykkur ný og góð tækifæri. Þökkum heimsóknir hingað í Brekkutúnið og vel á minnst heimsóknir á þessa heimasíðu. Fariði varlega með flugelda og blys. Gleðilegt ár gott og farsælt komandi ár.
Flugeldar yfir Perlunni.












Ég fór í gærdag vestur til Ísafjarðar. Myndin hér er af Silfurtorginu í vetrarbúningi. En sama sjónarhorn má finna á bloggi frá því í júlí er ég tók aðra mynd þar. Flugið vestur var bókað kl. 13.30 en við komumst ekki í loftið vegna þess að vélin var biluð. Skipt var um vél og haldið í loftið að verða 14.30. Flugið vestur gékk vel en það var svolítill hristingur yfir Djúpinu eins og verða vill. Fyrir óvana er þetta óþægilegt, vont en það venst. Hríðarmugga var en hún náði ekki inn í Skutulsfjörð. Erindið var fimmtugsafmæli sjávarútvegsráðherra haldið í Bolungarvík. Þetta var fínasta veisla og skemmtilegt að taka þátt í henni. Eftir ræður og mat var slegið upp balli og stóð það langt fram á nótt. Við vorum komnir heim á hótel um 4.00. Við vorum vaknaðir um 8.00 í morgun og drifum okkur þrír ég, Kristján Loftsson og Hjörtur Gíslason í gönguferð um bæinn. Enduðum inn í Gamla bakaríinu og fengum okkur kaffi og með því. Virkilega notaleg stund og frúin gaf okkur þetta fína "stollen". Átti flug kl. 14.20 en gátum fengið því flýtt til 11.20.Flugum í fylgd forsetans, formanns Sjálfstæðisflokksins og fleiri fyrirmanna. Það munaði um það við vorum komnir í bæinn kl. 12.00. Í dag hefur maður verið að jafna sig eftir ferðina. Sirrý og Sigrún fóru í þrítugsafmæli til Kristínar Guðmundsdóttur, dóttur Sveingerðar. Við hringdum í Hjört og Ingibjörgu og sáum nafna í beinni. Honum fer mikið fram. Jæja bið að heilsa.