sunnudagur, 15. febrúar 2009
Í fyrsta sinn austur
Það var í júlí árið 1958 sem við fórum austur á Eyrarbakka með Jóni Höskuldssyni leigubílstjóra að hitta frændfólkið í Gunnarshúsi. Þetta rifjaðist upp í dag þegar ég var staddur austur í Hveragerði og stoppaði við kaffiskálann, sem ég man ekki lengur hvað er nefndur. Þá var leiðin svo löng og ströng á Bakkann að það þótti eðlilegt að stoppa og fá sér kaffisopa í Hveragerði. Ég man eftir því stoppi þegar ég kom inn í stóra veitingasalinn og fékk appelsín. Næst man ég eftir mér þegar við keyrðum fram hjá Hælinu eins og Litla Hraun var kallað. Það var einhver út í glugga og vínkaði okkur er við keyrðum framhjá. Það fór hrollur um mig þegar ég keyrði þarna sem barn og gerir það enn hálfri öld síðar. Af heimsókn minni í Gunnarshús man ég eftir gömlu blindu konunni sem sat og réri sér á bekk í eldhúsinu. Hún mun hafa heitið Helga og verið skjólstæðingur langömmu minnar sem tók hana upp á sína arma. Einnig man ég eftir flatkökunum sem Ásta afasystir mín bakaði á kolaeldavélina. Þær voru ekkert sérstakar nýjar en er þær höfðu jafnað sig voru þær mikið lostæti. Ég man eftir að hafa skoðað forlátann vörubíl ala Ford T módel, sem Gunnar afabróðir minn átti, held hann hafi ekki einu sinni verið gangfær.Þetta er í fyrsta skipti sem ég man eftir að hafa farið í bílferð út fyrir bæinn. Ég hafði þetta sama sumar mánuðinn áður farið í 80 ára afmæli langafa míns vestur á Ísafjörð í flugvél.
Labels:
Eyrarbakki,
Ferðalög,
Fjölskylda,
Í fyrsta sinn
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ég hef bara aldrei heyrt þig minnast á þetta fyrr...
Skrifa ummæli