mánudagur, 29. júní 2009

Í Áfangagili

Göngufélagarnir. Fyrsti hluti leiðarinnar var að baki. Það heitir í Áfangagili og ber nafn með rentu. Meðfylgjandi mynd er af kofanum í því ágæta gili. Ég þakkaði almættinu, hugsaði til píslargöngu Halgríms. "Upp,upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með." Nýreistur kofinn rúmaði ekki hópinn. Konurnar fengu kojurnar sem voru eins og þekkist í stríðsfangabúðum. Körlunum var vísað í hrútakofa fjær. Ég gisti í fyrsta sinn í fellihýsi hjá Kristni söngfélaga. Kvöldið var blautt, nestið borðað, bornar saman reynslusögur dagsins, spjallað um hitt og þetta, hlegið saman og sötrað á rauðvíni. Úff.. þetta var erfiður dagur og nóttin var líka erfið. Kófsvitnaði í svefnpokanum, svo kom kuldakafli, dormaði pínu, þurfti að pissa um nóttina og kunni ekki að opna fellihýsið, fann ekki gleraugun. Andskotinn ekki veit þetta á gott. Átti ég að segja þetta nóg og sleppa næsta áfanga eða halda áfram. Þetta var hugsunin sem barist var við fram undir morgun. Allt sem mér var í móti lagt fannst mér tala fyrir því að setja lokapunktinn við Áfangagil. Ég ákvað þó að lokum að halda áfram - Hellismannaleiðin var lokatakmarkið. Frá Rjúpnafelli í Landamannahelli var upphaflegt markmið mitt. Ég varð að halda áfram. Nóg í bili... meira síðar. Kveðja.
(Mynd: Kristinn Kjartansson)

2 ummæli:

Hjörtur sagði...

Djöfuls harka í gamla!! Ég er búinn að vera segja þessu efasemdaliði í kring um þig að þú ert í fantaformi og klárir svona göngu eins og að drekka vatn! Rosalega ánægður með þig!

Sveinn Hjörtur Hjartarson sagði...

Þakka það sonur sæll. Þær komu sér vel ofnæmispillurnar sem ég fékk hjá þér um árið. Fékk svo mörg mýbit að ég hætti að telja við fyrsta hundraðið. Kveðja. Sjáumst fljótt.