föstudagur, 19. júní 2009

Sögur af bankaruglinu.

Þegar bankaruglið stóð sem hæst tóku bankarnir upp á því að bjóða helstu viðskiptamönnum sínum í flottar utanlandsferðir. Gárungarnir sögðu að þeir sem væru valdir í svona lúxusferðir væru ýmist þeir sem ættu milljarð króna í bankanum eða skulduðu honum milljarð króna. Í þessum ferðum var boðið upp á allt það flottasta í mat og drykk sem hugsast gat. Í einni ferð til Ítaliu segir sagan að fengin hafi verið íslensk sönkona og píanóleikari til að leika og syngja þrjú lög fyrir gesti bankans. Píanóleikarinn var spurður hvaða tegund hljóðfæris hann vildi fá við undirleikinn. Hún hafði heyrt af flygli sem væri sérstaklega hannaður fyrir konur og nefndi að hana langaði að prófa hann. Vandamálið var hinsvegar það að þessi tegund var ekki til á Ítalíu. Þá var brugðið á það ráð að fá leigðan eitt eintak í næsta landi, Austurríki og bíll með sex píanóflutningsmönnum sendur frá Vín til Mílanó til þess að uppfylla óskir píanóleikarans. Engar sögur fara hinsvegar af því hvernig til tókst við flutning þessara þriggja laga við borðhaldið. Nú skuldum við Íslendingar 700 milljarða króna í Englandsbanka og þá vaknar spurningin hvort samið hafi verið um sömu lúxusferðakjör og hér þekktust fyrir okkur sem skuldum þessa peninga. Mega 700 Íslendingar eiga von á því að vera dregnir úr potti í svona lúxusferðir á næstu árum hjá Englandsbanka eða var þetta enn eitt séríslenska fyrirbærið þessar lúxusferðir?

1 ummæli:

Google+ sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.