sunnudagur, 31. maí 2009
Hvítasunnuhelgin
Við fórum í stúdentsveislu Einars Loga Snorrasonar í gærkvöldi. Áður höfðum við heimsótt Björn og Gunnhildi og vorum í kvöldmat með þeim ásamt Hildu, Völu Birnu og Sigrúnu Ástu, Stellu og Lilju og Sigrúnu. Í dag hafa það verið ýmis heimilsstörf sem setið hafa á hakanum og enn eru næg verkefni eftir. Ætlaði að fara á blues hátíðina á Hellu en varð of seinn fyrir. Þetta er það helsta í fréttum héðan. Kveðja.
miðvikudagur, 27. maí 2009
sunnudagur, 24. maí 2009
´52 árgangurinn í Kópavogi.

laugardagur, 23. maí 2009
Hittingur

fimmtudagur, 21. maí 2009
Englar og Djöflar
Fór á myndinna Englar og djöflar í kvöld. Ágætis afþreyingarmynd með táknmálsfræðingnum Robert Langdon (Tom Hanks) frá Harvard hinum sama og var aðalpersónan í Da Vinci Code. Þetta var ágætis afþreying með öll helstu atriðin sem góð glæpasaga þarf að búa yfir en ekkert meira en það. Minnir mig á það að ég á eftir að heimsækja Róm einhverntíma. Kveðja.
Athugasemd 11.4.2023 Við fórum til Rómar fyrir fjórum árum. Á pálmasunnudag vorum við á torgi Péturskirkju og hlýddum á messu Fransico páf. Við vorum þarna ásamt ca 50 þúsund öðrum. Ferðin til Rómar var sannkölluð ævintýraferð. Við fórum víða um baorgina og áttum þarna ógleymanlega daga.
miðvikudagur, 20. maí 2009
Sólardagar
Þetta eru búnir að vera frábærir sólardagar undanfarið. Það er ótrúlegt hvað sólarhiti hefur góð áhrif á allt mannlíf. Það hægist á öllu og hlutirnir virðast viðráðanlegri. Í dag fór ég einn Elliðaárhring með Skálmurum sem er fólk sem hittist kl. 19.30 niður í Fossvogi og gengur saman meira og minna allt árið. Þessar göngur eru á vegum Skaftfellingafélagsins í Reykjavík. Ég er líklega búinn að fara hringinn með þeim tíu sinnum í vetur. Lengsta gönguferðin tók heilar 90 mínútur í vetrarmyrkri, snjó og hálku. Í dag vorum við 50 mínútur vegna þess að við styttum aðeins hringinn og fórum í gegnum skóglendi. Í kvöldgöngunni nú var sólskin, stilla, fuglakvak og allt orðið iðagrænt.
sunnudagur, 17. maí 2009
Af W.H. Auden gleymd minning.

Andófsmaðurinn Aleksandr Solzhenitsyn

Labels:
"Mench",
Mannvonska,
Menning,
Stjórnmál
laugardagur, 16. maí 2009
Yndislegur dagur í skógarrjóðri

fimmtudagur, 14. maí 2009
The Lame Dudes.

miðvikudagur, 13. maí 2009
Tveir aðalfundir
Ég var á tveimur aðalfundum félaga í dag. Fyrri fundurinn var aðalfundur Byrs sparisjóðs en hinn síðari sem var ólíkt skemmtilegri var hjá Söngfélagi Skaftfellinga. Þegar ég kom heim fékk ég að vita að meirihluti eldri stjórnar Byrs hafði náð meirihlutakjöri með litlum mun þrátt fyrir nálægt 30 milljarða tap og rekstur sjóðsins í mikilli hættu. Þetta var dramatískur fundur og auðheyrt að fólki var misboðið hvernig rekstrinum var háttað á síðasta ári. Tíu aðilum lánað 30 milljarðar króna sem búið er að afskrifa sem tapað fé. Það var mikill léttir að komast loks á síðari aðalfundinn með söngfélögunum. Vertrrstarfið hefur verið mjög gjöfult og innihaldsríkt og ekki tapast ein einasta króna úr sjóðum félagsins þrátt fyrir efnahagskrísuna. Þvert á móti er til nokkurt fé í sjóði til að mæta ófyrirséðu. Nú er vetrarstarfinu í kórnum formlega lokið og ekki tekið til við söng fyrr en á hausti komanda. Þakka félögum mínum kærlega fyrir veturinn. Kveðja.
þriðjudagur, 12. maí 2009
Enn ein Eurovision keppnin

mánudagur, 11. maí 2009
Við tímamót - fimm ára blogg afmæli.
Kæru lesendur. Það eru núna fimm ár síðan þessi bloggsíða var opnuð. Alls eru innleggin orðin 911 á þessum árum. Ritstjórnarstefnan hefur ekki breyst. Pistlarnir fjalla í meginatriðum um ýmis efni tengd lífi og starfi bloggarans. Af hverju bloggar fólk? Það má telja ýmislegt til. Þetta er augljóslega leið til að tjá sig, deila ákveðnum hugðarefnum með hópi lesenda. Skrásetja hitt og þetta sem hægt er að ryfja upp síðar. Það er svo mikið af bloggsíðum að það eru yfirleitt einhverjir tengdir bloggaranum sem nenna að lesa. Þó er það ekki algilt. Ég á mér sjálfur nokkra uppáhaldsbloggara sem ég les reglulega. Þeir eru ekkert skyldir mér og ég hef aldrei hitt þá og geri ekkert sérstaklega ráð fyrir því. Er þó kominn í samband við þá. Því á ákveðnum tímapunkti fannst mér rétt að gefa mig upp við þá. Það eru fáir sem skrifa línu inn á bloggið mitt. Það skiptir mig engu máli ég veit að það er þó nokkur hópur sem les það og það nægir mér. Þetta var aldrei hugsað sem umræðublogg dægurmála með eftiráspekingum. Þetta blogg var hugsað í annállsstíl eins og nafnið ber með sér og vettvangur um hugðarefni bloggarans, m.ö.o. sjálfhvert blogg, orð sem ég nota orðið í tíma og ótíma eftir 6. október 2008. En jafnframt er það ætlað þér lesandi góður sem lesefni með uppbyggilegu efni og jákvæðri umfjöllun um hugðarefni sem gætu vakið forvitni. Það er þannig með þennan bloggara að hann vill ekki ræða mikið um bloggið eða efni þess. Þótt að sjálfsögðu sé ekki amast við því ef þig langar að nálgast þennan bloggara. Öllum er velkomið að lesa það meðan það er opið og bloggarinn treystir því lesandi góður að þú virðir þessa persónulegu miðlun upplýsinga og farir drengilega með efni þess. Jæja þetta er orðið nóg í tilefni fimm ára afmælisins. Ég læt þetta duga. Kveðja.
sunnudagur, 10. maí 2009
Að loknu vetrarstarfi.

Söngferð upp á Akranes.
Söngfélag Skaftfellinga fór upp á Akranes í dag og hélt tónleika í Tónborg,tónleikasal tónlistarskólans. Þetta var afar gefandi ferð og aðstæður til tónleikahalds góðar, en áheyrendur hefðu mátt vera fleiri. Eftir tónleikana var komið við að Mógilsá áður en haldið var í bæinn. Veðrið í dag var yndislegt einu orði sagt og útsýni af Skaganum til allra átta frábært. Kveðja.
fimmtudagur, 7. maí 2009
Sumartónleikar Söngfélags Skaftfellinga.

þriðjudagur, 5. maí 2009
Tíminn flýgur
Tíminn hefur verið mér hugleikinn undanfarið. Tíminn líður svo hratt að maður hefur vart undan að njóta hverrar stundar. Eins og öll gæði er tíminn takmarkaður - hver og einn á sinn tíma og honum er misjafnlega skipt. Einhver mesta speki sem ég hef heyrt um veraldlegan auð og verðmæti tíma var þegar tíðindamaður í sjónvarpinu spurði aldurhniginn athafnamann á Eskifirði hvort hann væri ríkur. Athafnamaðurinn svarðaði því til að hann væri ekki ríkur. En sagði þú ungi maður ert ríkur þú átt tímann fyrir þér sem ég á ekki lengur, þessvegna ert þú ríkur. Ég var minntur á það í vikunni að tíminn er það dýrmætasta sem við eigum. Það hvernig þú ákveður að verja honum er mikilvægasta ákvörðun sem þú tekur. Þetta fékk ég sem svar við þeirri staðhæfingu minni úr ranni hagfræðinnar að peningar væru afl þeirra huta sem gera skuli. Viðmælanda mínum fannst lítið til þessarar staðhæfingar koma og vildi meina að aflið væri fyrst og fremst tíminn sem maður væri tilbúinn til þess að verja í verkefnið. Frá sjónarhóli hagfræðinnar mundi þetta teljast marxískt viðhorf. Sá sem minnti mig á gildi tímans er ekki Marxisti heldur læknir - og miðað við sérsvið hans sem við skulum láta liggja milli hluta hefur hann vafalaust næma sýn á gildi tímans eða tímaleysisins eftir atvikum. Við þessa staðhæfingu rifjaðist upp fyrir mér umrætt viðtal við athafnamanninn um gildi tímans. Eigi að síður verður ekki horft fram hjá því að peningar eru nauðsynlegir til síns brúks en þeir duga skammt án vinnuframlags mannsins. Í samandregnu máli gátum við verið sammála um að tveir grundvallarþættir verðmætasköpunarinnar væru fjármagn\peningar og vinnuframlag\tími einsaklingsins. Það er svo önnur pæling hvernig við förum best með tímann og fjármagnið. Nóg í bili. Kveðja.
sunnudagur, 3. maí 2009
Innhverf íhugun
Ég skellti mér út í Háskólabíó í gær til að hlusta á kvikmyndaleikstjórann David Lynch fjalla um innhverfa íhugun. Hann bað um spurningar úr sal og svaraði þeim. Að vísu var stóri salurinn í Háskólabíó yfirfullur þegar ég kom en ég fylgdist með umfjöllun hans af sjónvarpsskjá í andyrinu. Það var fróðlegt að heyra í honum og einnar messu virði. Þessi íhugun sem hann talar fyrir byggir á því að hún sé stunduð kvölds og morgna. Maður kaupir möntru og leiðbeiningar sem kosta 100 þúsund krónur.(ath. hélt þetta væri 10 þúsund kr. en samkvæmt ábendingu er verðið 100 þúsund kr. sem ég sá á líka á miða en trúði ekki!) Leitað sé hinnar fullkomnu lífshamingju sem sé djúpt í manneskjunni sjálfri. Hann lofar góðum árangri með þessari aðferð. Maður losar sig við reiði og víkkar jákvæða hugsun með það að markmiði að losa sig við kvíða, hræðslu og ótta. Þannig opnist betur ýmis svið manneskjunar eins og þáttur sköpunar, skynjunar o.s.fr. Fólk eigi að leitast við að ganga í átt að ljósinu. Aðspurður hvort reiði geti átt rétt á sér sagði hann að það kæmi sér eingöngu vel fyrir listamenn sem væru að reyna við stúlkur. Þetta er svona það helsta sem ég nam af frásögn hans. Þessi samkoma vakti mig aftur á móti til meðvitundar um hversu mikilli þörf við erum fyrir ábyrga og trúverðuga leiðsögn. Hvar eru leiðtogar okkar - veraldlegir og andlegir eru þeir allir í felum eða enn að rífast? Ekkert í þessum fyrirlestri var það fréttnæmt eða nýtt að það gæti ekki rúmast í sunnudagspredikun. Af hverju er kirkjan svona sjálfhverf að hún höfðar ekki lengur til unga fólksins sem var þarna í miklum meirihluta? Af hverju þurfa svona margir kennimenn kirkjunnar að skera sig úr fjöldanum sem "skrítlingar" eins og krakkarnir segja? Hafa þeir enga trú á boðskapnum - eiga þeir ekki til lítillæti - er yfirborðsmennskan orðin svona mikil - eiga þeir eða hafa þeir ekkert að gefa? Spyr sá sem ekki veit. Satt best að segja sat ég inni með þessa hugsun eftir að hafa farið á þennan fyrirlestur hjá leikstjóranum. Eigi að síður margítrekaði hann að þessi aðferð hefði ekkert með trúmál að gera - auðvitað er hún meiður af austurlenskum trúfræðum hinduisma - búddisma? Ég er ekki nógu vel að mér í þeim fræðum til þess að skera úr um það. En margt af því sem hann sagði má einnig finna í kristinni trúariðkun svo mikið er víst og þarf ekki möntru við - nóg að lesa brot úr Nýja testamenntinu, íhuga eða fara með bæn. Nóg í bili. Kveðja.
laugardagur, 2. maí 2009
Málin krufin.
Ég var að horfa á ÍNN sem er sú sjónvarpsstöð sem ég hlorfi orðið einna mest á - sjónvarpsstöð hins talaða orðs. Ótrúlegt hvað þáttagerðin er fjölbreytileg og mikil deigla í henni. Heimastjórnin er þáttur sem ég hef sérstaklega gaman að hlusta á þá Hall Hallsson, Jón Kristinn Snæhólm og Ingva Hrafn kryfja málin. Var að horfa á menningartengdan þátt og svo horfi ég stundum á Elinóru frænku mína tala um frumkvöðlamál. Kveðja.
föstudagur, 1. maí 2009
Fyrsti maí.
Þennan dag tengi ég ávallt minningu afa míns Axels Gunnarssonar sjómanns og hafnarstarfsmanns. Líklega vegna þess að djúpt í minningarbrotum bernskuáranna er mynd af okkur í kröfugöngu niður Skólavörðustíginn. Ég hef verið svona fimm ára gamall. Um afa sagði Guðmundur jaki, formaður Dagsbrúnar einu sinni við mig: "Axel er einn af kreppukynslóðinni sem af harðfylgi komust í gegnum þær hremmingar sem fylgdu Kreppunni miklu á þriðja áratug síðustu aldar." Mér þótti vænt um þessi orð vegna þess að þau vísuðu til karlmennskulundar og ósérhlífni hans. Í fórum mínum á ég einnig lýsingu af honum úr bók Tryggva Ófeigssonar útgerðarmanns þar sem mannkosta hans er minnst sérstaklega í æviminningum Tryggva. Annað minningarbort frá fyrsta maí hátíðarhöldum er töluvert nýrra eða frá Svíþjóðarárunum þegar maður mætti upp á búinn til að hlutsta á Olaf Palme á Götaplatsen árið 1976 halda hátíðarræðu dagsins. Þriðja og síðasta minningarbrotið er frá árinu 1983 þegar eiginkonan dreif alla fjölskylduna niður í bæ til að sýna BHM félögum sínum samstöðu í fyrsta verkfalli háskólamanna hjá ríkinu. Á leiðinni kenndi hún börnum sínum þetta slagorð: Óli er ljóti karlinn - Indriði er illur. Svo vel tókst henni til við kennsluna að við ýmis tækifæri á liðnum áratugum hefur þessi setning skotist upp í huga minn. Fyrir þá sem yngri eru er rétt að geta þess að Óli er núna forseti lýðveldisins og Indriði var yfirmaður launamála hjá ríkinu og síðar ríkisskattstjóri og ráðuneytisstjóri. Hann talar nú um að rétt sé að hækka þannig skatta að þeir bíti. Launþegum þessa lands eru sendar bestu kveðjur í tilefni dagsins.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)