
þriðjudagur, 30. desember 2008
Gleðilegt ár með þökk fyrir það gamla.

Labels:
Bloggið,
Fjölskylda,
Kórinn,
Rótarý,
Vesturfarar,
Vinir,
Vinna
mánudagur, 29. desember 2008
Jólin komin og farin

laugardagur, 27. desember 2008
Fréttir úr jólafríinu

miðvikudagur, 24. desember 2008
Á jólanótt


þriðjudagur, 23. desember 2008
Til móts við hátíðina.
Ég fór í skötuna á Hótel Loftleiðum í dag í hádeginu en Sirrý komst ekki vegna fótbrotsins. Þetta er orðinn árviss atburður að borða kæsta skötu á þessum degi eins og jafnan á æskuheimilinu. Ég hef gaman af því að strákarnir mínir vilja líka skötu á þessum degi. Fór með fyrra fallinu heim i dag og er búinn að vera önnum kafinn við jólaundirbúninginn. Sjóða rauðkál samkvæmt kúnstarinnar reglum að ég tali nú ekki um hangikjötið. Nú svo höfum við verið að hlusta á jólakveðjurnar í útvarpinu - alltaf jafn hlýlegar. Búinn að skreyta jólatréð þannig að þetta er allt að koma. Kveðja.
sunnudagur, 21. desember 2008
Friðsælt í Fossvogsdal
Það er friðsælt hér í Fossvogsdalnum í kvöld. Ótrúlegt að það skuli vera óveður og ófærð hér rétt fyrir ofan bæinn. Annars lítið héðan að frétta. Það er í ýmsu að snúast þessa dagana. Ég er að passa Sunnu þessa dagana og gengur það ágætlega. Farið í verslunarferðir og hitt góðan vin, sem leysti mig út með flottri gjöf. Þetta er svona það helsta héðan. Kveðja.
þriðjudagur, 16. desember 2008
Kúabóndinn Persson
Hlustaði á Göran Persson í viðtali við Boga Ágústsson áðan. Hann mælti margt af skynsemi og hefur ugglaust skilað sínu sem forsætisráðherra Svía. Ég er samt ekki tilbúinn að afhenda ESB fiskimiðin okkar fyrir inngöngu. Kveðja.
sunnudagur, 14. desember 2008
Aftur á sunnudegi
Dagarnir líða fljótt. Þetta eru annasamir tímar í leik og starfi. Á fimmtudaginn var ég á jólafundi Rótarýklúbbs Kópavogs í vitlausu veðri. Turninn gékk fram og aftur í veðurofsanum. Tilfinningin var svipuð því að vera um borð í skipi út á rúmsjó. Sirrý varð fyrir því óláni í gær að fótbrjóta sig og er vonandi að hún jafni sig á því fljótt. Hjörtur og Ingibjörg komu með Svein Hjört og Jóhannes Erni í gær í jólafrí. Það eru sannarlega forréttindi að hafa sína nánustu í kringum sig á jólum. Maður fylgist með landsmálum og eftirmálum bankahrunsins af athygli.Það kemur æ betur í ljós hvað þetta áfall er alvarlegt og hversu óvarlega var farið og fífldirfskan mikil. Það er sorglegt að vita til þess að skellurinn skuli lenda svo þungt á fólki.
þriðjudagur, 9. desember 2008
Úr dagsins önn.
Í kvöld héldum við Skaftarnir okkar árlegu jólatónleika á LSH - Grensásdeild og LSH -Geðdeild. Tónleikarnir tókust ágætlega en þó er mun skemmtilegra að syngja á geðdeildinni þar sem hljómburður er afburða góður. Hinsvegar er hljómburður afleitur á Grensásdeildinni. Þá er haust önnin í kórnum fullkomnuð og við komin í jólafrí. Ég er búinn að vera duglegur að mæta það sem af er vetri og hef haft gaman af. Kórinn er skipaður góðu söngfólki og mjög gefandi að taka þátt í starfinu. Í dag fór ég til Grindavíkur í jarðarför Tómasar Þorvaldssonar útgerðarmanns þess merka athafnamanns. Tómasi kynntist ég sem ungur maður er ég hóf störf fyrir samtök útvegsmanna. Kveðja.
mánudagur, 8. desember 2008
Í afmælisveislu

sunnudagur, 7. desember 2008
Þar fór í verra....
Komst ekki til að syngja á tónleikunum með Sköftunum í dag. Eins gott að maður er í 30 manna kór og það skipti ekki sköpum þótt vanti einn. Foreldrarnir voru mættir á tónleikana ásamt rúmlega 200 öðrum. Þannig að ég dreif mig á staðinn um leið og ég losnaði og fagnaði með kórfélögum og fékk kaffi með kökum, þótt kórinn væri búinn að syngja prógrammið. Það er einu sinni svo að hin launaða vinna gengur fyrir áhugamálunum. Annars var ég að lesa Vikuna í dag. Þar eru viðtöl við tvo af uppáhaldsbloggurum mínum sem ég hef fylgst með í tvö til þrjú ár eða svo. Fyrra viðtalið var við hana Hörpu rithöfund, hannyrðakonu og hirðljósmyndara Reynisdranga í Víkurfjöru sem heldur út Vestanpóstinum frá Vík í Mýrdal og Evu ljóðskjáld,norn,samfélagsrýni og uppreisnarkonu sem heldur út blogginu Sápuóperu. Maður hélt í einfeldni sinni að maður ætti þessa bloggara fyrir sig ásamt fáum útvöldum en nú er víst búið að uppgötva þær. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig frægðarkorterið eins og Andy Warhol kallaði það mun móta skrif þeirra í kjölfarið. Vonandi að frægðin fari mjúkum höndum um þessar perlur og neistinn í skrifum þeirra verði áfram tær. Kveðja.
laugardagur, 6. desember 2008
Rembist við rútínuna.
Maður reynir eftir fremsta megni að halda sér í sinni daglegu rútínu. Það hefur gengið ágætlega í vinnu, en því miður gengið hálf illa á ýmsum öðrum sviðum. Í dag fór ég í leikfimi eftir að hafa skrópað í síðustu viku. Að vísu fór ég í mikla kraftgöngu í Elliðárdal en var þreyttur og hrakinn næstu tvo daga á eftir. Ég fór líka í Rótarý en hafði skrópað þar vikuna áður. Ekkert hefur maður bloggað í heila viku en að vísu verið duglegur að hanga á facebook eða fésinu eins og sumir kalla það. Leikfimisstjórinn minn bað mig í dag að reyna bæta úr mætingu minni í leikfiminni. "Þó ekki væri nema fyrir mig" klykkti hann út með. Maður fær náttúrulega bullandi samviskubit eftir svona samtal og lofar öllu fögru með sjálfum sér. Fátt er þó svo með öllu illt. Söngæfingar hef ég mætt á reglulega og svo eru tónleikarnir um helgina sem ég mæti á. Við höfum líka verið að gera hér eitt og annað heima við. Sett upp ljós inni og úti og svona eitt og annað. Læt þetta duga. Kveðja.
laugardagur, 29. nóvember 2008
Enn um efnahagslægðina

miðvikudagur, 26. nóvember 2008
Skálmað með skálmurum

þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Aðventuhátíð hjá Söngfélagi Skaftfellinga
Var á söngæfingu í kvöld. Næstsíðsta söngæfing fyrir aðventuhátiðina þann 7. desember hjá Söngfélagi Skaftfellinga og hefst hún kl.15.00 á Laugavegi 178. Hvet alla Skaftfellinga, Mýrdælinga og Skaftártungumenn mér tengda að mæta í kaffi og kökur. Aðgangseyrir er 1000 kr. og ókeypis fyrir börn innan 15 ára aldurs. Enginn verður svikinn af fjölbreytilegu lagavali kórsins að þessu sinni. Kveðja.
laugardagur, 22. nóvember 2008
Sveitin milli sanda
Í vikunni fór ég á myndakvöld hjá Skaftfellingafélaginu í Reykjavík og horfði á sjónvarpsmyndir sem teknar voru árið 1967 í Öræfasveit. Magnús Bjarnfreðsson var þulur í myndunum og tók viðtal við ýmsa fyrirmenn sveitarinnar. Ég man þegar þær voru upphaflega sýndar í sjónvarpinu. Sérstaklega man ég eftir beltadrekanum honum Dreka og svaðilför ferðafélaga úr Ferðafélagi Kópavogs yfir óbrúðar jökulár. Myndirnar eru svarthvítar þannig þær ná ekki að lýsa stórfenglegri náttúru svæðisins. Rödd Magnúsar gefur frásögninni mikilfenglegan blæ sem fangar athygli áhorfandans. Viðtöl hans við menn um málefni sveitarinnar og áhrif þess á sveitinna að einangrun verði afnumin með bættum vegasamgöngum eru eftirminnileg. Meira að segja slíkar breytingar töldu menn geta haft neikvæð áhrif og þá aðallega varðandi umgengni. Eftirminnilegast er viðtal hans við Hannes Jónsson póst á Núpstað um svaðilför hans uppi á Skeiðarárjökli í miðju jökulhlaupi.
miðvikudagur, 19. nóvember 2008
Ég var þar....
Í gærmorgun var ég mættur ásamt mörg hundruð manns á ráðstefnu Viðskiptaráðs Íslands sem haldin var til að fjalla um nýja peningamálaskýrslu Seðlabanka Íslands. Ræðumaður dagsins var formaður bankastjórnar SI og hélt hann mikla ræðu til varnar Seðlabanka Íslands og ábyrgðarþátt hans í falli 85% af fjármálakerfinu. Ræðuna má nálgast hér á heimasíðu Seðlabankans. Bankarnir voru einkavæddir fyrir sex árum. Þeir hófu að efla starfsemi sína og tóku til þess gríðarleg lán erlendis til að endurlána erlendis og hér innanlands. Ýmsir höfðu uppi varnaðarorð um að of geyst væri farið. Á þessi varnaðarorð var ekki hlustað eða þá að leikurinn var of langt genginn til þess að hægt væri að snúa við. Viðkvæðið var að bankarnir hefðu trausta stöðu. Svo kom fjárhagskreppan og feykti burtu mörgum bankastofnunum víða um lönd. Í byrjun október féll saman 85% af fjármálakerfi landsins eins og spilaborg. Nánar tiltekið allir þrír helstu viðskiptabankar landsins. Eftir stendur að margir "gíruðu" sig upp og tóku háar lánsfjárhæðir í erlendum myntum og voru með í leiknum. Skuldir fyrirtækja og heimila uxu óheyrilega. Um þetta mátti lesa í opinberum hagskýrslum. Víða er fólk og fyrirtæki í gríðarlegum vandræðum vegna skulda sem ekki ræðst við. Svo eru þeir sem vildu fara varlega og lögðu fé inn á sparnaðarreikninga í stað þess að eyða þeim. Nú eða fólk sem lagði aukalega inn á lífeyrisreikninga. Fólks sem vildi sýna ráðdeild, þrátt fyrir öll gylliboðin. Framundan eru erfiðir tímar sem varið verður í það að greiða skuldir og byggja upp að nýju. Eðlilega eru miklar tilfinningar tendar þessari stöðu. Fólk spyr hverju sé um að kenna, hverjir beri ábyrgð? Enn aðrir segja ekki benda á mig og svona henda menn boltanum á milli sín. Mistókst einkavæðing bankanna, mistókst eftirlit með inn- og útlánum bankakerfisins? Því verður ekki neitað hvernig sem á það er litið. Ábyrgð þeirra sem báru ábyrgð á rekstri bankakerfisins er mikil. Ábyrgð þeirra sem áttu að fylgjast með starfseminni er líka mikil. Ábyrgð stjórnvalda sem eiga að sjá til þess að meðalhófs sé gætt í öllu er varðar almannahagsmuni er mikil. Ábyrgð þeirra sem "gíruðu" sig upp í miklum lántökum og fóru óvarlega er mikil.Hluti af því að gera upp þessi mál er að fólk axli ábyrgð. Þeir sem áttu að gæta almannahagsmuna verða líka að axla ábyrgð. Þannig eru leikreglurnar í siðuðu réttarsamfélagi.
sunnudagur, 16. nóvember 2008
Blákaldur veruleikinn
Sumir geta talað sig í gegnum svona ástand eins og nú er uppi. Fengið útrás fyrir reiði sína og hugsanir. Komið því á framfæri við þjóðina hvað þeir séu klárir og réttlætið sé þeirra. Svo eru það við hin sem viljum helst hlusta og vega og meta stöðuna. Auðvitað erum við öll sár og reið yfir því hvernig komið er. En hvernig vinnum við okkur út úr stöðunni? Við getum ekki endalaust verið reið. Sagði ekki geðlæknirinn að reiðin væri verst fyrir þann sem er reiður. Það leysir heldur enginn úr okkar vanda nema við sjálf. Það kemur enginn stóribróðir og tekur í hönd okkar. En við þurfum mikinn velvilja og skilning til að takast á við vandamálin ekki síst hérna heima og líka erlendis. Þess vegna er eins gott að okkur renni reiðin. G20 hittust í Washington um helgina. Það hefur ekki verið eytt mikum tíma í að fjalla um okkar mál á þeirri samkomu. Það er að taka við ný stjórn í USA þar gerist ekkert fyrr en nýir valdhafar taka við. Eitthvað var þó talað um það að auka þyrfti hjálp þeirra verst stöddu í þróunarlöndunum, þessum sem hafa um og yfir dollara til ráðstöfnunar á dag. Það er eins gott því við erum að skera þar niður.
föstudagur, 14. nóvember 2008
Ferðatöf
Það er sérstakt að vera mættur á Kastrup og standa frammi fyrir því að vera með flugmiða og ákveðinn tíma og dagsetningu á flugi sem er ekki á skjánum og enginn kannast við að sé á þessum tíma. Þessu lenti ég í þegar ég ætlaði heim til Íslands á miðvikudaginn. Flugið var fellt niður og mér sást yfir e-mail frá flugfélaginu. Ferðin frá Kristianstad fór ekki allveg sem skyldi heldur. Ég varð að fara út í Svågertorp og taka rútu á Kastrup. Skýringin var að lestarteinarnir væru ekki í lagi á Eyrarsundsbrúnni. Það var ekki um annað að gera en að snúa við til Kristianstad að nýju eftir þessa fíluferð. Þá var lestin farin að ganga yfir brúnna að nýju, nema hvað rétt áður en komið er að Svågertorp stoppar lestin og lestarstjórinn upplýsir að vegna þess að það sé einhver hlutur á sporinu komist lestin ekki áfram. Eftir nokkra bið heldur lestin áfram, en upplýst er að hún fari ekki nema til Malmö Centralstation. Hluturinn sem lestarstjórinn talaði um reyndist vera manneskja sem var á brautinni. Ég skipti um lest og tek ákvörðun um að hopppa upp í lest til Hässleholm í stað þess að bíða í óvissu um hvort Kristianstad lestin færi klukkutíma síðar. Á leiðinni var í þrígang verið að hvetja þá sem ætluðu til Kristianstad að hoppa af og bíða eftir Kristianstad lestinni. Ég tók ekki þann séns en bað Hjört að sækja mig í Hässleholm, en það er um 20 mínúta akstur að heiman frá honum. Í sænsku fréttunum var sagt frá því í kvöld að áætlanir lestakerfisins yrði tekið til endurskoðunar. Ef þetta er oft svona hjá þeim blessuðum skil ég það mæta vel.
þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Hann Jói bróðir á afmæli
sunnudagur, 9. nóvember 2008
Á Hamri
Höfum að mestu tekið því rólega hér að Hamri í dag. Verið úti með strákunum að leika. Veðrið hefur verið ágæt ca. 10°c skýjað, frekar rakt en að öðru leyti ágætis veður. Maður er hálf hissa hvað það er rólegt yfir öllu hérna. Enginn að mótmæla og fólk að hvíla sig eftir vikuna og safna krafti. Maður er svolítið að gjóa í tölvuna og lesa fréttir að heiman. Þýðir víst ekkert að neita því. Það tekur mann smá tíma að hægja á sér úr stressinu. Kveðja.
laugardagur, 8. nóvember 2008
Dansað með indjánum
Kominn til Kristianstad
Ferðin gékk vel í gær komum til Kristianstad klukkan tíu um kvöldið. Annars allt gott að frétta. Verðurm í bandi. Kveðja.
fimmtudagur, 6. nóvember 2008
Nokkrar spurningar
1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
a) Starfsmaður í Tax free verslun á Landvätter Gbg
b) Hagfræðingur í fjárlaga- og hagsýslu, fjármálaráðuneyti
c) Rekstarráðgjafi hjá Hagvangi hf
d) hagfræðingur LÍÚ
2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
a) 79 af stöðinni
b) Hrafninn flýgur
c) Með allt á hreinu - Stuðmenn
d) Tár úr steini - Um Jón Leifs
3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
a) Víðihvammi
b) Omgången Gbg
c) Engihjalla
d) Brekkutúni
4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
a) Frakkland
b) Kanada
c) USA
d) Mallorka
5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
a) Onidin skipafélagið
b) Band of brothers
c) Friends
d) Fréttir
6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
a) brekkutúnsannáll
b) m5.is
c) mbl.is
d) liu.is
7. Fernt sem ég held upp á matarkyns:
a) ný ýsa
b) nýr steinbítur
c) lambalæri með hvítlauk
d) Jensínu ömmu ísinn
8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:
a) Economics
b) Passíusálmarnir
c) Sönglög Sigfúsar Halldórssonar
d) Nýja testamentið
9. Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:
a) Heima
b) London
c) Kristianstad
d) Ísafirði
10. Fjórir bloggarar sem ég klukka:
a) Hjörtur Friðrik
b) Unnur Sveins
c) Valdimar
d) Erla Hlín
a) Starfsmaður í Tax free verslun á Landvätter Gbg
b) Hagfræðingur í fjárlaga- og hagsýslu, fjármálaráðuneyti
c) Rekstarráðgjafi hjá Hagvangi hf
d) hagfræðingur LÍÚ
2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
a) 79 af stöðinni
b) Hrafninn flýgur
c) Með allt á hreinu - Stuðmenn
d) Tár úr steini - Um Jón Leifs
3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
a) Víðihvammi
b) Omgången Gbg
c) Engihjalla
d) Brekkutúni
4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
a) Frakkland
b) Kanada
c) USA
d) Mallorka
5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
a) Onidin skipafélagið
b) Band of brothers
c) Friends
d) Fréttir
6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
a) brekkutúnsannáll
b) m5.is
c) mbl.is
d) liu.is
7. Fernt sem ég held upp á matarkyns:
a) ný ýsa
b) nýr steinbítur
c) lambalæri með hvítlauk
d) Jensínu ömmu ísinn
8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:
a) Economics
b) Passíusálmarnir
c) Sönglög Sigfúsar Halldórssonar
d) Nýja testamentið
9. Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:
a) Heima
b) London
c) Kristianstad
d) Ísafirði
10. Fjórir bloggarar sem ég klukka:
a) Hjörtur Friðrik
b) Unnur Sveins
c) Valdimar
d) Erla Hlín
miðvikudagur, 5. nóvember 2008
Ná sér í útlenda aura
Fór í bankann í dag til að ná mér í útlenda aura. Veit ekki af hverju, en var svolítið niðurlútur við það að biðja um gjaldeyri á þessum síðustu og verstu tímum. Maður vill nú ekki íþyngja efnahag þjóðarinnar um of. Á miða í anddyrinu stóð að ég mætti fá fyrir 50 þúsund krónur. Þegar ég kom að stúkunni spurði gjaldkerinn mig hvað ég þyrfti mikið. Ég svaraði vandræðalega, ja hvað má ég fá mikið ég er að fara í helgarferð, hélt að þá fengi ég enn minna vegna þess að vinur minn hafði fengið 50 þúsund og hann sem var að fara í hnattferð. Hvað viltu mikið sagði gjaldkerinn brosandi. Nú má ég fá fullan skammt er ekki frekari takmörk? Búið að aflétta skömmtun, sagði gjaldkerinn. Jæja, heyrðu þá fæ ég svona 2000 danskar krónur, óþarfi að hamstra. Gjörðu svo vel sagði gjaldkerinn og rétti mér aurinn. Ég fór glaður út með nýja von um að nú færi þetta allt að lagast. Kveðja.
þriðjudagur, 4. nóvember 2008
Flytja af landi brott.

Labels:
Pæling,
Samfélagsmál,
Svíþjóð
sunnudagur, 2. nóvember 2008
Sporðlausi gullfiskurinn
Við keyptum okkur gullfisk fyrir tveim mánuðum á 700.- Hann er svona 20 grömm að þyngd. Uppreiknað kílóverðið á gullfiskum er því 35 þúsund krónur en það er önnnur saga. Einn morguninn var fiskurinn sporðlaus. Hvernig hann fór að því að glata sporðinum er okkur hulin ráðgáta. Hann er eigi að síður hinn sprækasti og syndir sem aldrei fyrr með styrtlunni og raufarugganum. Ef einhver kann skýringu á þessu væri gaman að heyra hana. Varla missa fiskar sporðinn eins og hreindýr hornin eða hvað?
laugardagur, 1. nóvember 2008
Úr einu í annað

fimmtudagur, 30. október 2008
Fyrsti í aðalfundi
Hinn árlegi aðalfundur LÍÚ hófst í dag. Þetta er 24. fundurinn sem ég tek þátt í. Ég var þrjátíu og þriggja ára þegar maður byrjaði á þessum starfsvettvangi. Margir þeirra sem mæta þarna hafa gengið með manni veginn í nær aldarfjórðung. Vel var mætt og fundurinn tókst vel. Mikil samstaða í hópunum. Nú er að hefja viðsnúninginnn og taka slaginn. Allir fullir bjartsýni þrátt fyrir ágjöf undanfarnar vikur. Við gerðum okkur dagamun og borðuðum saman í kvöld. Kveðja.
miðvikudagur, 29. október 2008
Kúnstin að hlusta
Það eru margir sem hlusta sjaldan heldur trana sér fram og tala í síbylju á mannamótum. Þessir aðilar hafa svo gaman af að heyra eigin rödd að þeir eiga erfitt með að stilla sig. Það þarf kunnáttu og hæfileika til þess að geta verið góður hlustandi, ef enginn væri hlustandinn væri ekki þörf fyrir flytjanda. Sá sem hlustar á auðveldara með að taka yfirvegaða ákvörðun. Því miður held ég að skólarnir kenni ekki nemendum þá kúnst að hlusta nógsamlega. Okkur væri ef til vill betur komið hér á landi ef við hefðum hlustað eftir varnaðarorðum á síðustu árum. Kveðja.
þriðjudagur, 28. október 2008
Söngæfing

mánudagur, 27. október 2008
Kyrrt í Fossvogi
Það er gott skyggni hér í Fossvogi í kvöld. Þrátt fyrir myrkrið er útsýni ágætt. Það gerir heiðskír himinn og hvít slikja á jörðu. Flugvitinn á Perlunni lýsir með sínu græna og hvíta ljósi upp í himinhvolfið og leiðbeinir flugvélum. Kórónan á Borgarspítalanum er vel upplýst og rautt ljós á toppinum eins og jarðaber á ískúf. Vonandi að ungmennin hinumegin í dalnum séu ekki alvarlega slösuð eftir gassprenginguna. Sjarminn við Fossvoginn er kvöldkyrrðin, kyrrð í dalnum þótt í nágrenni hans séu miklar umferðaræðar. Dalurinn er stórt útivistarsvæði sem bæði Kópavogsbúar og Reykvíkingar geta notið ríkulega. Nú er svolítið kallt úti líklega - 2°C að minnsta kosti. Kveðja.
sunnudagur, 26. október 2008
Heimboð að Tröð

laugardagur, 25. október 2008
IMF aðstoð og fleira
Þá er búið að tilkynna um að leitað verði aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Vonandi verður það til þess að greiða úr efnahagsmálum okkar og koma flæði gjaldeyris til og frá landinum í lag. Ég held við verðum fljót að vinna okkur út úr þessum vandræðum. Ísland er lítið hagkerfi, sveigjanlegt og með stuttum boðleiðum. Grunnstoðir þjóðfélagsins eru sterkar og vonandi kemst bankakerfið fljótt í gang og nú á heilbrigðari grunni. Var á fundi í Útvegsmanafélagi Reykjavíkur í gær. Í kvöld er útskriftarveisla hjá Þórunni systur sem er orðinn þroskaþjálfi. Síðan förum við í sumarbústað austur í Grímsnesi að heimsækja Bigga og Gullu. Hér voru í gærkvöldi vinnufélagar Sirrýjar í heimsókn. Þetta er það helsta. Kveðja.
miðvikudagur, 22. október 2008
Snúast að nýju
Maður hefur það á tilfinningunni að greiðsluflæðið til og frá landinu sé aðeins farið að snúast að nýju. Stóra frétt dagsins var að Bretar afléttu hryðjuverkalögunum af Landsbankanum. Hef verið á tveimur útvegsmannafundum í vikunni. Annar var í Stykkishólmi á mánudaginn og hinn var í Hafnarfirði í kvöld.Sá þriðji og síðasti verður í Reykjavík á föstudaginn. Annars mest lítið í fréttum. Það er búið að vera vetrarlegt úti í dag enda langt liðið á október og ekki við öðru að búast. Hundurinn Sunna hefur verið hér í heimsókn undanfarna daga. Maður vaknar snemma til þess að fara með hana í sína venjulegu göngutúra. Í gær fórum við í afmæli Stefaníu systur. Þetta er það helsta. Kveðja.
sunnudagur, 19. október 2008
Árið nítján hundruð sextíu og átta
Kynslóðin sem braut upp viðteknar venjur upp úr miðbik síðustu aldar er jafnan kennd við 1968. Samkvæmt skilgreiningum fell ég undir þessa kynslóð eða síðari hluta hennar þótt ég hafi aldrei fundið til neinnar sérstakrar samstöðu með þessum hópi. Maður tilheyrði ört stækkandi kynslóðum eftirstríðsáranna. Að öðru leyti átti maður fátt sameiginlegt með 68 hreyfingunni, enda voru það vinstri menn sem réðu ferðinni. Tvennt er það sem setið hefur í minningunni frá árinu 1968. Í fyrsta lagi var það hin efnahagslegu áföll sem við urðum fyrir þegar síldin hvarf og í öðru lagi innrás Sovétmanna inn í Tékkoslavakíu. Hvorutveggja hafði veruleg áhrif á mig og er mér enn í fersku minni. Efnahagslegu áhrifin vegna þess að þetta sumar var ég atvinnulaus, nokkuð sem ég hafði aldrei upplifað áður. Innrásin vegna þess að ég upplifði í fyrsta skipti hversu smáríki má sín lítils gegn ofríkis stórveldis - frelsi almennings væri ekki sjálfsagður hlutur. Nú nákvæmlega fjörtíu árum síðar steðjar að okkur efnahagsleg vá og breska stórveldið hefur sett okkur í herkví þannig að greiðsluflæði gjaldeyris til og frá landinu hefur verið í lamasessi í tvær vikur! Vafalaust munum við vinna okkur út úr þessum vandræðum en það mun taka tíma.
laugardagur, 18. október 2008
Bullað út í eitt.
,,Myndlistin og tónlistin höfðu þar með vinningin yfir ljóðið." Ég rakst á þessa setningu í listaverkabók um verk Leonardo da Vincis í dag þar sem verið var að lofa karlinn fyrir fullkomnun í myndlist sinni. Lesa mætti fleira en einn ákveðin boðskap úr myndum hans og var þá verið að fjalla um frægasta málverk allra tíma hina einu sönnu Mónu Lísu. Eins væri með tónlistina úr henni mætti lesa margt úr tónaflóðinu.Svona geta fræðingar bullað út í eitt og látið prenta á glanspappír. Eins og í ljóði geti ekki falist fleira en einn boðskapur. Auðvitað getur falist í ljóði margvíslegur boðskapur. Ég neita því ekki að í fyrstu fannst mér gaman að lesa þetta því ég er meira fyrir myndmál og lag. En þetta er bara eins og hvert annað bull að fullyrða um þetta.
föstudagur, 17. október 2008
Stikk frí - þú ert´ann
Muniði eftir eltingarleikjunum í gamla daga út á götu. Hver og einn hljóp eins hratt og hann gat og reyndi með öllum tiltækum ráðum að verða ekki klukkaður. Svo voru ákveðin svæði sem maður gat verið stikk frí - það mátti ekki klukka mann og segja: þú ert´ann. Svona ímynda ég mér að mörgum líði í kvöld. Vikan er búin að vera annarsöm og óvissa og spenna mikil en nú er komið föstudagskvöld - erum stikk frí eitt augnablik. Við erum að passa hér unga dömu hana Lilju, sem segir hæ í símann, horfir í fjórða sinn á BBC þáttinn um Teletubbies á disknum sínum. Það er helst í fréttum að Hilda og Maggi eignuðust stúlku í dag. Við óskum þeim til hamingju með barnið. Þetta eru helstu fréttir héðan. Kveðja.
fimmtudagur, 16. október 2008
Vinarkveðja
Manni hlýnar um hjartarætur þegar maður fær hvatningu frá kunningjum vegna erfiðra aðstæðna okkar. Í dag fékk ég kveðju frá norskum kollega sem sagði að við værum harðduglegt fólk sem mundi vinna sig í gegnum það tímabil sem nú færi í hönd. Ég trúi því líka. Það skiptir mestu að koma greiðsluflæði fjármagns til og frá landinu í lag. Það er númer eitt, tvö og þrjú í efnahagsmálum. Hryðjuverkalög Browns hafa gert okkur það erfiðara vegna þess að greiðslur í útlöndum fara í gegnum London og við eigum svo mikil viðskipti við Breta. Nú þurfum við á öllum vinveittum öflum til þess að greiða úr þessu vandamáli. Kveðja.
miðvikudagur, 15. október 2008
Fiskisúpuafmæli Sveins

mánudagur, 13. október 2008
Eitt vor enn
Ég las aftur ljóðabókina hans Gylfa Gröndals heitins rótarýfélaga, Eitt vor enn. Síðasta ljóðið í bókinni er svona:
Þótt æ fleiri
feiknstafir séu ristir
í galdur tilverunnar
eins og fífa í mýri
grær enn mitt fallvalta vonarhró
og biður um kraftaverk.
Ég tel það mikil forréttindi að hafa kynnst þessum rótarýfélaga og við mörg tækifæri fengið að njóta upplestra hans úr verkum sínum þau ár sem við vorum saman í Rótarýklúbbi Kópavogs. Ég hvet ykkur til að lesa þessa ljóðabók því hún er mögnuð. Ég þjónaði sem ritari í forsetatíð hans í klúbbnum okkar. Nálgast má mynd af stjórninni hér. Kveðja
Þótt æ fleiri
feiknstafir séu ristir
í galdur tilverunnar
eins og fífa í mýri
grær enn mitt fallvalta vonarhró
og biður um kraftaverk.
Ég tel það mikil forréttindi að hafa kynnst þessum rótarýfélaga og við mörg tækifæri fengið að njóta upplestra hans úr verkum sínum þau ár sem við vorum saman í Rótarýklúbbi Kópavogs. Ég hvet ykkur til að lesa þessa ljóðabók því hún er mögnuð. Ég þjónaði sem ritari í forsetatíð hans í klúbbnum okkar. Nálgast má mynd af stjórninni hér. Kveðja
sunnudagur, 12. október 2008
Ekvadorsýning

laugardagur, 11. október 2008
Laugardagur til lukku
Það er gott að búið er að ná samningum við Hollendinga og fréttir berast af góðum gangi í viðræðum við Breta líka varðandi innstæðureikninga fólks í viðkomandi löndum. Vonandi verður helgin drjúg og gjaldeyrisviðskipti í landinu komin í samt lag eftir helgi. Það er mikilvægt að starfsemi í landinu verði ekki fyrir miklum áfölluum til viðbótar vegna ástandsins á fjármálamörkuðum. Ég hef fulla trú á að þeir sem stjórna ferðinni nái farsælli lendingu fyrir þjóðina. Við munum sjá það eftir helgina hvort þessi alþjóðlega kreppa eigi enn eftir að versna. Það ræðst af því hvort fundarhöld G7 ríkjanna bera einhvern árangur nú um helgina. Það gæti dregið til frekari tíðinda á alþjóðavettvangi en það veit það enginn. Kveðja.
föstudagur, 10. október 2008
Í tábergsstöðu

fimmtudagur, 9. október 2008
Verndum okkar
Það var sárt að lesa um dapurleg örlög Kaupþings banka í morgun og að breska stjórnin hefði beitt hryðjuverkarlögum okkar menn. Ég vil samt leyfa mér að vera bjartsýnn á framtíðina. Verkefnið verður að byggja upp nýtt bankakerfi sem getur þjónað landsmönnum af öryggi til langrar framtíðar. Maður má ekki láta vandamál líðandi stundar heltaka sig. Við verðum gæta að þeim sem eiga erfitt og fá þau til að horfa til nýrrar framtíðar. Þetta er sameiginlegt verkefni sem við stöndum frammi fyrir og við munum sigrast á því. Kveðja.
miðvikudagur, 8. október 2008
Standa sig vel

Forsætisráðherra stóð sig mjög vel á blaðamannafundinum kl. 16.00 í dag þegar hann fór yfir stöðu efnahagsmála vegna fjármálakrísunnar. Það sama á við um viðskiptaráðherra. Þeir voru fumlausir og augljóslega komnir með góða yfirsýn yfir gang mála. Það sem skiptir öllu við svona aðstæður er að fólk finni að þeir sem stjórni ferðinni séu sannfærðir um að þeir séu á rétti leið. Það er mikill fengur að sá sem stýrir málum býr yfir gríðarlegri þekkingu á efnahagsmálum og reynslu sem nýtist vel við þessar aðstæður. Gengur ákveðinn til verks og er trúverðugur. Forgangsatriðin liggja ljós fyrir. Fyrst koma hagsmunir þjóðarinnar, svo verður lögð áhersla á að bjarga þeim fjárhagslegu verðmætum sem hægt er að bjarga. Kveðja.
þriðjudagur, 7. október 2008
Einn góður...
Kona fór í hraðbanka Landsbankans í dag til að taka út peninga. Þegar hún fékk peningana hvað hátt og snjallt í henni, Nei sko rússneskar rúbblúr í stað króna!
mánudagur, 6. október 2008
Viðsjárverðir tímar.
Það eru viðsjárverðir tímar í efnahagslífinu hér og víða um heim. Það er óhætt að segja að í dag hafi kreppan skollið yfir okkur af fullum krafti. Óvissan um framhaldið er enn mikil og vafalaust margt sem ekki er komið fram enn. Margir hafa orðið og munu verða fyrir fjárhagslegum áföllum. Við verðum að ætla að takast megi að vinda bug á þessum ósköpum. Nú gildir að taka einn dag í einu og missa ekki móðinn. Standa saman eins og í öllum áföllum. Okkur leggst vonandi eitthvað gott til. Kveðja.
sunnudagur, 5. október 2008
Helgin
Á föstudagskvöldið var okkur boðið í lokahóf Sjávarútvegssýningarinnar sem haldið var undir stúkuvæng Laugardalsvallarins. Þarna var margt um manninn örugglega yfir 300 manns. Þetta svæði er 100 metra gangur. Maturinn var góður - lamb í aðalrétt og vínið gott frá Jacobs Creek frá Ástralíu. Í gærdag fórum við í skírn Helgu Adlu. Sú litla var sem sé skírð í höfuðið á Helga móðurafa sínum. Adla er líbanískt nafn í höfuðið á föðurömmu hennar. Nú í dag hefur maður annars verið í vinnunni. Kveðja.
Labels:
Fjölskylda,
Sjávarútvegur,
Vinir
föstudagur, 3. október 2008
Sjávarútvegssýningin 2008

fimmtudagur, 2. október 2008
Sjávarútvegssýning við erfiðar aðstæður.
Endaði daginn á því að fara í Turninn í Kópavogi og vera viðstaddur verðlaunaafhendingu í tengslum við Sjávarútvegssýninguna í Kópavogi sem stendur þessa dagana. Kristján Ragnarsson fékk heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til sjávarútvegsins og Bergur Huginn hf í Vestmannaeyjum var valinn framsæknasta útgerðin. Annars hefur mikið af deginum farið í að fyljgast með hremmingum á fjármálamarkaði og ræða við fólk um stöðu mála. Eins og einn viðmælenda orðaði það: "Nú er fárviðri í efnahagslífinu. Það þýðir ekkert annað en halda sig inni við og bíða þess að þessu fárviðri sloti. Þá er fyrst hægt að fara og meta tjónið. Það er of seint að ætla sér að binda og festa hluti úti við núna. Það er of hættulegt að vera útivið."
miðvikudagur, 1. október 2008
Heimsókn í Haraldarhús
Vil benda ykkur sem hafið gaman af sjávarútvegssögu að heimsækja vefsvæði Haraldarhúss á Akranesi með því að smella hér. Þarna má sjá mikið myndasafn sem tekið hefur verið saman um sögu HB á Akranesi.
mánudagur, 29. september 2008
Stórtíðindi í fjármálageiranum
Þetta eru mikil tíðindi sem eiga sér stað í fjármálaheiminum og munu hafa mikil áhrif á viðskiptaumhverfið í bráð og lengd. Fyrir hluthafa í Glitni er tjónið tilfinnanlegt. Eigið fé Glitnis var um rúmir 234 milljarðar króna í síðustu viku. Ef 75% af því er horfið nú við yfirtöku ríkisins á bankanum þá hafa hluthafar í bankanum tapað um 175,5 milljörðum króna. Fréttir berast víða að úr Evrópu um aðgerðir evrópskra ríkisstjórna til þess að bjarga bönkum í erfiðleikum. Þannig var sagt frá bankakrísunni í sænskum fréttum í kvöld. Oft hefur maður velt fyrir sér Kreppunni miklu og aðdraganda hennar árið 1929. Aldrei hefur þó hvarflað að manni að maður ætti eftir að upplifa aðdraganda hennar í samtímanum. Augljóslega eru núna að gerast þeir atburðir í fjármálakerfi heimsins að ekki er ofsagt að það hrikti í grunnstoðum þess. Bankakerfið víða um lönd hefur misst trúverðuleika almennings og þetta traust þarf að endurvinna með aukinni ábyrgð og trúverðugleika. Í þeim efnum duga engar skyndilausnir.
sunnudagur, 28. september 2008
Yfirhlaðin auglýsingatafla

laugardagur, 27. september 2008
Grænmetismarkaðurinn í Mosfellsdal

Labels:
Fjármál,
Fjölskylda,
Markaðsmál
miðvikudagur, 24. september 2008
Í minningu Elínar Þorsteinsdóttur
þriðjudagur, 23. september 2008
Öfundsverðar langtímahorfur
Byrjaði daginn á að fara á ráðstefnu Landsbankans varðandi hagspá (hér má nálgst skýrslu LÍ) þeirra frá 2008 til 2012. Ágætis yfirferð Halldórs Kristjánssonar bankastjóra og hagfræðinga bankans yfir stöðu efnahagsmála. Þótt útgangspunktur þeirra væri að leggja áherslu á hið jákvæða í langtímahorfum efnahagsmála var undirtónninn alvarlegur. Fjármálageirann sögðu þau í djúpri kreppu. Ástandið hefði ekki verið jafn slæmt síðan 1929 í kreppunni miklu. Erfiðir tímar færu í hönd. Mikilvægt væri að leggja áherslu að halda fullri atvinnu. Svigrúm til launahækkana væri ekki fyrir hendi. Svolítið hjáróma að vísu í ljósi þess hverjir hafa keyrt upp launin undanfarin ár. Bankarnir yrðu að endurskoða lánareglur sínar og starfshætti frá grunni. Mikið hefði farið úrskeiðis og mörgum grunnreglum í lánastarfsemi hefði verið kastað fyrir róða undanfarin ár - illu heilli. Nú væri að búa í haginn fyrir þessa kreppu sem væri rétt að byrja. Bankastjórinn sagði að nú þýddi ekkert að keyra með bakljósin það yrði að halda áfram og þýddi lítt að dvelja við það sem liðið væri. Er það svo? Ég held að málið sé ekki svo einfalt. Það er nauðsynlegt að fara yfir þessa stöðu og reyna að læra af henni og skilja hana. Í þeim efnum er mikið verk óunnið.
laugardagur, 20. september 2008
Í góðan bíltúr

Helgi vinur segir að ég sé eini maðurinn sem hann þekki sem nenni að fara í 500 km bíltúra. Hann er eini maðurinn sem ég þekki sem nennir að fara 6000 km vikuferð í sumarbústað og millilenda í Amsterdam. Í þessum dúr var spjall okkar þar sem ég var á miðjum Mýrdalssandi og hann að renna í hlað í Commesssey í Burgundy. Jæja við skruppum þrjú í ferð austur í Skaftártungu í dag. Stoppuðum aðeins í Vík og tókum eina af dröngunum því til staðfestingar.


föstudagur, 19. september 2008
Kóngsrottan
Ég las einu sinni bók með þessu nafni. Hún fjallaði um hermann sem lifði eins og kóngur í japönsku herfangelsi við ömurlegustu aðstæður þar sem félagar hans dóu umvörpum. Viðskiptahæfileikar hans nutu sín einstaklega vel þarna í fangelsinu. Einn daginn opnaðist fangelsishliðið, stríðinu var lokið og hann var ekki lengur kóngurinn. Samfangar hans sniðgengu hann og enginn þeirra vildi kannast við hann. Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér í dag þegar ég var að lesa um þessa kauphallarmenn sem hafa stundað skortsölu á fjármálamörkuðum. Þeir fundu gróðaleið með því að veðja á vandræði fjármálamarkaðarins, fengu hlutabréf að láni og seldu þau í von um að þau mundu halda áfram að lækka. Kaupa síðan hlutabréfin aftur lægra verði skila þeim og hirða mismuninn. Auðvitað hafa þeir svo talað markaðinn niður til þess að græða sem mest á niðursveiflunni. Þetta er áleitin siðferðileg spurning hvort þetta sé í lagi. Segir ekki að velgengni byggist á því að sjá tækifærin í hverri stöðu en ekki vandamálin? Mér dettur aðeins í hug hin eftirminnilega setning fyrrum kennara míns, Vilmundar Gylfasonar: löglegt en siðlaust.
fimmtudagur, 18. september 2008
Krónan gerð ótrúverðug

Haft var eftir Davíð Oddsyni seðlabankastjóra í Mbl í dag að atlagan að krónunni væri afskaplega ógæfuleg og óskiljanleg í rauninni og menn ættu ekki að leyfa sér hana um þessar mundir. Á leiðinni heim úr vinnu hlustaði ég á sjálfan viðskiptaráðherra Björgvin G Sigurðsson tjá sig um efnahagsmálin. Ég hjó eftir því að hann nefndi krónuna sem "minnsta gjaldmiðil í heimi". Þeir sem vilja gera hana ótrúverðuga nota oft þessi rök til að grafa undan krónunni. Er þessi fullyrðing ráðherrans rétt? Er það svo að krónan er minnsti gjaldmiðill í heimi? Hvernig metur hann það? Hvaða forsendur liggja að baki þessari fullyrðingu mannsins? Eins og svo oft er svona fullyrðingum haldið á lofti án þess að fyrir því séu færð frekari rök. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er Ísland mælt í vergri landsframleiðslu(GDP) í 92 sæti af 179 löndum (sjá hér). Verg landsframleiðsla er algengasti mælikvarði á stærð hagkerfa. Með öðrum orðum íslenska krónu hagkerfið er um miðbik meðal þjóða heimsins. Á þessari heimaslóð hér má nálgast lista yfir gjaldmiðla heimsins. Eins og ráðherrann mun komast að ef hann á annað borð nennir að kynna sér málið mun hann sjá að það að í minni hagkerfum en á Íslandi eru notaðir sjálfstæðir gjaldmiðlar. Það er lágmarkskrafa að viðskiptaráherra landsins sé með þetta á hreinu. Það væri nú lag fyrir seðlabankastjóra eða einhvern í Seðlabankanum að banka uppá hjá honum og fara yfir málið.
miðvikudagur, 17. september 2008
Leitað að sökudólgum




þriðjudagur, 16. september 2008
Haustregnið lemur glugga.
Það rignir og það er rok. Fyrsta alvöru haustlægðin gengur nú yfir á suðvestur horninu. Ég fór bæði á rótarýfund í dag þar sem kynnt var starfsemi Molans, sem er menningarhús fyrir ungmenni í Kópavogi. Í kvöld skellti ég mér líka á söngæfingu hjá Sköftunum. Lag kvöldsins var: Það vex eitt blóm fyrir vestan, og vornóttin mild og hljóð, kemur á ljósum klæðum og kveður því vögguljóð, kemur og kveður því ljóð. Ég ann þessu eina blómi, sem aldrei ég fékk að sjá. Og þangað horfir minn hugur í hljóðri og einmanna þrá, hljóðri og einmanna þrá. Því geng ég fár og fölur með framandi jörð við il. Það vex eitt blóm fyrir vestan og veit ekki að ég er til, veit ekki að ég er til. Það fer vel á því að verma sér við minningu liðinnar helgar og syngja þennan texta eftir Stein Steinarr. Þetta er svona það helsta. Sirrý kom heim frá Kaupmannahöfn í gær eftir dvöl í Danmörku. Kveðja.
Labels:
Fjölskylda,
Kórinn,
Rótarý,
Veður
mánudagur, 15. september 2008
Fjármálageiri í vanda
Það er ef til vill full dramatísk lýsing á því sem er að gerast á fjármálamörkuðum að tala um hrunadans en það eru stórtíðindi að Lehmann brothers (stofnað 1850) sé gjaldþrota og Merrill Lynch (stofnað 1914) sé búið að yfirtaka af Bank of America. Þetta ofan á að tveir helstu húsnæðislánasjóðir Bandaríkjanna Fannie Mae og Freddy Mac voru teknir yfir af Seðlabanka Bandaríkjanna þegar ljóst var að þeir væru komnir í mikil vandræði og hlutafé þeirra hrunið niður um 90%. Þetta er alvarlegasta áfall í hagsögu Bandaríkjanna frá því í október 1929 er Kreppan mikla hófst með hruni á Wall Street. Enn er ekki séð fyrir endan á þessum áföllum. Við getum verið viss um að ef Wall Street hnerrar fá fjármálageirar í öðrum löndum kvef. Slíkur er máttur bandaríska fjármálamarkaðarins og hagkerfisins. Það veit enginn á þessari stundu hvernig þessi kreppa mun þróast. Miðað við þróunina í dag er ljóst að öllum fjármálafyrirtækjum verður ekki bjargað og hætt við að mikið fé glatist bæði útistandandi skuldir og hlutafé fjárfesta. Áhrifin á afkomu fólks á næstu misserum geta orðið mikil sérstaklega þeirra sem hafa ekki borð fyrir báru eða missa vinnu sína. Eins skrítið og það hljómar er mjög mikilvægt að fólk haldi ró sinni og panik nái ekki undirtökunum í efnahagslífi heimsins. Þá fyrst er voðinn vís. Nú er að bíta á jaxlinn og vona að þessi áföll gangi fljótt yfir.
sunnudagur, 14. september 2008
Mugison og Villi Valla
Fór í bæinn í dag og keypti mér vestfirska tónlist. Það þýðir víst lítið að lofa Ísafjörð og hafa ekki heyrt það nýjasta. Keypti í Tólf tónum, fyrstu plötuna hans Mugison Lonely mountain. Ég þarf nú að hlusta nokkrum sinnum á hana áður en ég næ honum. Svo keypti ég mér plötuna hans Villi Valla sem hún Lauga spilaði fyrir mig um daginn. Þessi plata er náttúrlega vestfirskur menningarviðburður sem allir innvígðir verða að eignast.
Rok og rigning -eirðarleysi.
Ég hef aldrei séð sjarman við það að komast vart milli húsa vegna rigningar - já og roks. Það hefur verið stanslaus rigning síðan ég kom í bæinn í gær. Vil ekki að veðrið segi mér hvenær ég eigi að lesa bók, liggja í rúminu, kveikja á kerti, drekka kakó, sleppa því að fara í bakaríð, fara ekki í sund, spara bensínið, gera eitthvað, fara eitthvað, hanga í tölvunni. Best að hætta því líka það hefur stytt upp. Svona er eirðarleysi mitt. Kveðja.
ps. Það kom þessi fallegi regnbogi yfir Fossvoginn. En nú er ég hættur.
ps. Það kom þessi fallegi regnbogi yfir Fossvoginn. En nú er ég hættur.
laugardagur, 13. september 2008
Ísafjörður





Labels:
Ferðalög,
Ísafjörður,
Sjávarútvegur,
Vinna
fimmtudagur, 11. september 2008
Ferð til Ísafjarðar
Ísafjörður er einn af þessum stöðum á landinu sem afar gaman er að koma til. Þangað er ferð minni heitið á morgun og fram á laugardag. Það hefur ef til vill sitt að segja að ég er alinn upp í því viðhorfi að Ísafjörður við Skötulsfjörð sé merkilegastur bæja á Íslandi. Þar sé í rauninni allt mest og best og fátt sem jafnist á við þetta bæjarfélag. Bærinn á sér merka sögu á flestum sviðum mannlífsins. Hver hefði trúað því að fyrir hundrað árum eða svo hafi verið gufuskipaáætlun um Ísafjarðardjúp og beinar millilandasiglingar milli Kaupmannahafnar og Ísafjarðar. Þetta er eigi að síður staðreynd og segir okkur hvað einstaklingar með framkvæmdavilja og getu eru megnugir ef þeir beita sér. Ásgeirsverslun sem starfaði frá 1851 til 1919 stóð fyrir þessari starfsemi. Menningarlífið var lengi og er enn í miklum blóma. Tónlistarfrömuðir bæjarins á síðustu öld voru meðal annars Jónas Tómasson og Ragnar H Ragnars. Sunnukórinn skipaði sér í fremstu röð íslenskra kóra. Enn er tónlist í hávegum höfð þar vestra. Er ekki Mugison sá frægasti í dag? Ég á engan nákominn ættingja núna á Ísafirði það best ég veit, en föðurfólkið mitt í karllegg er ættað þaðan og frá Aðalvík. Svona má áfram telja, en hér verður látið staðar numið. Kveðja.
miðvikudagur, 10. september 2008
Söngæfingar að nýju.

sunnudagur, 7. september 2008
Loksins, loksins - ég fékk fisk



laugardagur, 6. september 2008
Brottfarir og komur
Það er helst í fréttum að Sirrý fór til Kaupmannahafnar í vikunni og verður þar næstu viku. Hjörtur Ingibjörg og strákarnir eru hjá henni um helgina. Foreldrar mínir komu frá Mallorka í vikunni ásamt Þórunni systur. Nú þær mæðgurnar komu úr Minniapolis ferðinni í vikunni eftir góða daga þar í borg. Að vísu sögðu þær að ekki hefði verið þverfótandi fyrir republikönum sem voru að fara á þing sitt í St.Paul að hilla sinn mann, McCain. Hef verið að mestu heima í dag heimsótti þó foreldrana sem voru við jarðarför biskupsins. Fylgdist með jarðarför Herra Sigurbjörns Einarssonar biskups eins og væntanlega stór hluti þjóðarinnar. Blessuð sé minning þessa merka kennimanns. Nú ég er að fara í Iðuna á morgun svona dagsferð. Þetta er það helsta héðan. Kveðja.
föstudagur, 5. september 2008
Gæfa fylgi góðu starfi.........




Labels:
Ferðalög,
Íþróttir,
Kirkja,
Sjávarútvegur,
Vinir
þriðjudagur, 2. september 2008
Flutt í Turninn.



sunnudagur, 31. ágúst 2008
Kvenskörungur.
Annars hefur helgin liðið hjá sem örskotstund eins og venjulega. Markmiðið var að koma heilmiklu í verk en því miður hefur það ekki orðið sem skyldi. Á föstudagskvöldið var ég boðinn í 75 ára afmæli Guðrúnar Lárusdóttur útgerðarkonu í Hafnarfirði. Þar var m.a. boðið um á söng og tískusýningu. Vox Feminae (Rödd kvenna), sem Margrét J Pálmadóttir stjórnar söng nokkur lög. Þá héldu dætur Guðrúnar tískusýningu þar sem sýnd voru vesti og kjólar sem hún hefur hekklað í gegnum tíðina. Nú laugardagurinn fór í ýmislegt hér heima við. Í dag sunnudag var ég boðinn í Grænuhlíðina í bröns. Prófaði nýja píanóið hennar Laugu og svo hlustuðum við á nýja plötu sem er ættuð að vestan með lögum eftir Vilberg Vilbergsson. Ágætis tónlist valsar,tango, blues og jass. Hitti Valdimar og Lilju líka í Grænuhlíðinni. Nafni og pabbi hans hringdu frá Svíþjóð. Þetta er það helsta. Kveðja.
laugardagur, 30. ágúst 2008
Ný útfærsla af möndluköku
Ég var að prófsmakka nýja útfærslu af möndluköku í Bónus. Hún var flatri en eldri útfærsla og kremið rautt en ekki bleikt. Möndlukökur eru eitt af áhugamálum mínum. Þetta eru hversdagskökur sem fást víða en þeim er sjaldan haldið á lofti í umræðunni. Þær eru misjafnar af gæðum og bragði og það fer ekki alltaf eftir verðflokkum. Bestar eru möndlukökurnar jafnan í Björnsbakari á Skúlagötu en þær eru líka langdýrarstar þar kosta ca 800.-. Næst besta möndlukaka sem ég hef fengið var í Kristjánsbakarí á Akureyri fyrir mörgum árum. Hún hafði þá sérstæðu að kremið á henn var hvítt en ekki bleikt. Möndlukökurnar hjá Reyni bakara á Dalvegi eru ágætar og mun ódýrari en í Björnsbakarí. Algengastar eru möndlukökurnar frá Millunni og fást víða. Þær hefur mér ekki þótt neitt sérstakar þar til ég datt niður á það að skella þeim inn í mikróofninn í tvær mínútur og borða þær heitar með mjúku kremi. Þannig komast þær nálægt því að vera jafngóðar og í Björnsbakari, en þær eru meira en helmingi ódýrari. Þá er þess að geta að Kornið sem er mitt aðal bakarí er stundum með hátíðarútgáfur af möndlukökum en oftast eru þær ekki til. Stundum er Bónus með tilboð á möndlukökum. Reyndar hef ég grun um að sá sem er yfir möndlukökuframboðinu í Bónus sé sérstakur áhugamaður um möndlukökur eins og ég. Hann/hún er oft með tilboð á einmitt þessari kökugerð. Þá stenst ég ekki mátið og kaupi nokkrar til að eiga í frystinum. Nú og svo var verið að kynna þessa nýju útfærslu af kökunni í dag. Ástæðan fyrir því að möndlukökurnar eru bestar í Björnsbakari held ég að sé vegna þess að þeir nota egg í framleiðsluna. Hinsvegar hef ég einu sinni keypt möndluköku af þeim sem var engu líkari en að þeir hefðu misst möndludropna í baksturinn. Þessi möndluköku áhugi minni hefur orðið þess valdandi að í fjölskyldunni eru þær nefndar í höfuðið á mér, Svennakökur. Svona geta birtingarmyndir vanafastans verið. Kveðja.
miðvikudagur, 27. ágúst 2008
Mæðgurnar i Minneapolis
Þær mæðgur Sirrý og Sigrún skelltu sér vestur um haf til Minneapolis í dag og verða þar fram yfir helgi. Foreldrar mínir ásamt Þórunni systur skelltu sér í morgun til Mallorka í viku. Þau uðu að fresta för sinni fyrr í sumar af óviðráðanlegum ástæðum. Maður er að komast í sína daglegu rútínu og framundan eru hin skemmtilegustu verkefni. Kveðja.
sunnudagur, 24. ágúst 2008
Viðburðarrík helgi.




Labels:
Menning,
Strandarkirkjuganga,
Veður,
Vinir
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)